Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 8 árum.

Syndaaflausn Kára Stefánssonar

„Ég er hvat­vís óþverri,“ seg­ir Kári Stef­áns­son, en bar­átta hans fyr­ir hjálp til þeirra veik­ustu bend­ir til ann­ars. Kári seg­ir frá sög­unni sem hann hef­ur að segja heim­in­um. Hann ræð­ir um gene­tísk­ar til­hneig­ing­ar, heil­ann sem er hann, hjarta hans sem hneig­ist erfða­fræði­lega til þess að van­still­ast og rang­ind­in sem fel­ast í því að hann er auð­mað­ur á með­an syst­ir hans dreg­ur varla fram líf­ið af kenn­ara­laun­um. Hann seg­ir líka frá stærstu eft­ir­sjánni, sem leið­ir af mestu sigr­un­um.

„Það er svona vatn í kringum húsið, þar sem ég get drekkt blaðamönnum,“ segir Kári þegar við mælum okkur mót í höfuðstöðvum Íslenskrar erfðagreiningar. Ég segist mæta í vatnsheldu og held til fundar við hann. Nokkrum mánuðum áður hafði Kári hringt í mig, ósáttur við umfjöllun um skilyrði sem sett voru við gjöf á jáeindaskanna til Landspítalans, kallað mig  „strákaula“ og skellt á.

Hús Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýrinni er kastali. Það fer ekki á milli mála að Kári er þar kóngurinn. Í biðstofunni við skrifstofu Kára er boðið upp á piparkökur. Spurð hvers vegna hefðbundnar jólakökur séu á boðstólum um mitt sumar segir starfsmaður Íslenskrar erfðagreiningar: „Kári borðar piparkökur allt árið. Þær urðu vinsælar ein jólin og síðan hefur hann borðað þær.“

Kári er taugalæknir og taugameinafræðingur að mennt. Hann hefur gaman af því að taka fólk á taugum, stuða það og greina viðbrögðin. Þegar ég spyr hann út í þá tilhneigingu svarar hann með stuði: „Hvernig dettur þér í hug að koma með svona kenningar að ég hafi gaman af því? Ég bara geri það með því að vera sá sem ég er.“

Inni á skrifstofu hans er vítt útsýni yfir Hjartað í Vatnsmýrinni. Þar er líka smásjá. Sem meinafræðingur starfaði Kári á yngri árum við að greina mein í frystum og lituðum sneiðum af heila í gegnum smásjá. „Það er dramatískt að lesa frosnar sneiðar,“ segir Kári. „vegna þess að þú ert raunverulega ekkert annað en heilinn þinn. Ef ég tæki þig og ég myndi skræla afganginn af líkamanum frá heilanum og halda heilanum lifandi í fötu þá væri heilinn þú. Ef ég myndi halda afgangnum af líkamanum lifandi annars staðar  þá væri það eitthvað allt annað en þú.“

En Kári hefur snúið sér í auknum mæli að því að greina mein í heila og taugakerfi íslensks samfélags. Viðmið Kára fyrir heilbrigt samfélag er hvernig það bregst við veikindum fólks. Hann fann það á sjálfum sér þegar hann leitaði sér lækninga vegna hjartsláttaróreglu.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár