Síðustu ár hefur orðið mikil vitundarvakning meðal almennings varðandi heilsu og hollustu. Fólk á öllum aldri hleypur, skokkar, gengur á fjöll og lyftir lóðum. Samhliða þessu hefur fólk beint sjónum sínum og athygli að mataræði því það skiptir ekki minna máli en hreyfingin sjálf. Fyrirtæki hafa reynt að svara þessari bylgju með því að setja á markað próteinríkar vörur, fjölkornabrauð, brauð úr spelti og svo framvegis.
En neytendur vilja meira en bara hollar vörur. Þeir vilja líka vita hvernig matvælin sem þeir kaupa eru framleidd. Aðbúnaður dýranna er kominn í brennidepil. Þetta á ekki síst við um svínarækt og kjúklingarækt en þessar tvær greinar eiga lítið sameiginlegt með hugmyndinni um landbúnað og orðið „verksmiðjubúskapur“ nær betur utan um staðreyndir málsins. Aðbúnaður sláturdýra er oft í deiglunni á hinum Norðurlöndunum og ekki er langt síðan sænska þingið bætti stórlega við reglur ESB í svínarækt. Eggjaframleiðsla er sömuleiðis oft og tíðum í fréttum á Norðurlöndum og ekki síst vegna skelfilegra aðstæðna sem hænur á verksmiðjubúum búa við.
Neytendur krefjast þess að fá að velja á milli þess að kaupa verksmiðjuegg og egg þar sem aðbúnaður hænanna er betri. Markaðurinn svaraði með allskonar stöðlum. Þeir staðlar kveða á um aðbúnað hænanna og eru allt frá því að hænurnar eru í búrum en hafa meira pláss en reglugerðin krefst og upp í að hænan vappar frjáls út á túni og undir ströngu eftirliti roggins hana sem passar upp á sitt. En er allt sem sýnist í þessum efnum?
Athugasemdir