„Ég hafði ekkert borðað allan daginn út af spennu,“ segir víetnömsk kona, sem Útlendingastofnun vill láta undirgangast lögreglurannsókn á þeim grundvelli að hún og eiginmaður hennar hafi stofnað til málamyndahjónabands til að tryggja henni landvistarleyfi á Íslandi.
Van Hao Do og Thi Thuy Nguyen eru bæði frá Víetnam en hann hefur verið á Íslandi frá barnsaldri og hefur varanlegt landvistarleyfi. Hjónin giftu sig í desember 2013, þegar hún bar barn hans undir belti. Mat Útlendingastofnunnar byggir meðal annars á myndbandi úr brúðkaupinu, þar sem starfsmenn stofnunnar telja sig sjá að henni líði illa sem og upplýsingum frá Landspítalanum. Fréttablaðið greindi fyrst frá málinu í gær.
„Ég skil ekki afhverju þeir eru að segja þetta“
Blaðamaður Stundarinnar hitti hjónin á heimili þeirra í Fellsmúla í morgun og heyrði sögu þeirra.
Snemma árs 2013 kom Thuy tímabundið til landsins, en hún á fjölskyldu hér á landi og kynntist Van Hao í gegnum frænda sinn, sem er einn af hans bestu vinum. Hao fluttist til landsins á svipuðum tíma og frændinn, eða rétt eftir aldarmótin og með þeim tókst fljótt vinátta. Frændi Thuy bauð henni að koma til Íslands að starfa sem au pair fyrir vinafólk hans. Nokkrum mánuðum síðar hafði hún kynnst Hao. Fljótlega fóru þau að draga sig saman og örfáum mánuðum síðar gengu þau í hjónaband.
Síðar sendi Útlendingastofnun beiðni til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um að hefja rannsókn á því hvort hjónabandið væri aðeins til málamynda. Dvalarleyfi Thuy hefði runnið út í apríl 2014, en þá var hún orðin ólétt og ástfangin, að eigin sögn.
Grunur Útlendingastofnunnar kviknaði hins vegar vegna myndbands úr brúðkaupinu þar sem starfsmenn stofnunarinnar þóttust sjá að Thuy liði afar illa í eigin brúðkaupi. Á þeim myndum sem blaðamaður hefur fengið að sjá úr brúðkaupinu er ekki annað að sjá en að hún sé glöð, enda brosir hún á þeim flestum. Hjónin taka það hins vegar fram að hún hafi stundum fundið fyrir líkamlegri vanlíðan, vegna þess að hún var barnshafandi, komin mánuð á leið og að berjast við heiftarlega ógleði og aðra meðgöngukvilla. Í samtali við Stundina segir Thi Thuy einnig frá því að hún hafi verið svo spennt fyrir brúðkaupinu að hún hafi ekkert getað borðað þennan dag.
„Ég var ólétt og leið frekar illa líkamlega“
„Ég var ólétt og leið frekar illa líkamlega, ég hafði ekkert borðað allan daginn út af spennu. Þeir eru að rugla saman líkamlegri vanlíðan við andlega vanlíðan,“ segir Thuy.
Tveimur mánuðum síðar, eða í febrúar, voru hjónin boðuð í viðtal hjá Útlendingastofnun þar sem þeirra hagir voru ræddir. Fimm mánuðum síðar fengu þau bréf þar sem þeim var tilkynnt að hjónabandið væri enn talið gervihjónaband. Í bréfinu er búið að feitletra texta sem segir að upplýsingar frá hjónunum virðist vera rangar sem geti varðað sektum eða fangelsi samkvæmt almennum hegningarlögum. Þau benda hins vegar á að misræmi í frásögn þeirra skýrist af túlkunarvanda og menningarmun á milli landa. Í Víetnam sé hefð fyrir því að brúðgumi greiði fyrir brúðkaupið og því hafi hún ekki getað svarað spurningum um fjármögnun þess. Brúðkaupið fór hins vegar fram í kirkju þann 28. desember 2013 og var veglegt á þeirra mælikvarða.
Hún bendir á að brúðkaup í Víetnam séu ekki með nákvæmlega sama sniði og hér á landi. Þar sé til dæmis ekki óalgengt að brúðir hágráti í eigin brúðkaupi. Hjónum telja að það sé einkennileg staða að opinber stofnun og blaðamenn rýni í tilfinninglegt ástand hennar í brúðkaupinu.
Þá hefur Vísir einnig greint frá því að í bréfi Útlendingastofnunar til lögreglu í desember 2014 sé staðhæft að samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum sé Thuy „mjög ung og barnaleg en maðurinn hennar óframfærinn“.
Samkvæmt 13. gr. útlendingalaga ber Útlendingastofnun að kanna hvort um málamyndahjónaband sé að ræða ef annar einstaklingur í hjúskap er 24 ára eða yngri. Útlendingastofnun hefur ekki vald til að rannsaka mál á sama hátt og lögregla og hefur ekki aðgang að sjúkraskýrslum fólks.
„Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda“
Í samtali við Fréttablaðið segir Skúli Á. Sigurðsson, verkefnastjóri hælismála hjá Útlendingastofnun, að þessar upplýsingar hafi fengist þegar Útlendingastofnun hafi fengið upphringingu frá Landspítalanum. „Þetta kom bara í símtali og það liggur fyrir í dagbókarfærslu í okkar innri kerfum,“ segir hann. Hann segist ekki geta svarað fyrir það hvaða heimildir aðrir hafa til að veita upplýsingar en stofnuninni bæri skylda til að bregðast við.
Ekki er vitað hver hringdi í Útlendingastofnun en líklega var það gert þegar konan leitaði þangað vegna fæðingu barnsins, eða á meðgöngu, við fósturskimun, en dóttir þeirra, Sandra, fæddist 3. september 2014. Ljóst er hins vegar að Landspítalanum er óheimilt að veita Útlendingastofnun slíkar upplýsingar um einstaklinga sem þangað leita.
„Mér fannst skrýtið að heyra að ég hafi verið barnaleg í fæðingunni. Ég skil ekki afhverju þeir eru að segja þetta,“ segir hún.
Bæði Thuy og Hao segja að staðan sem þau eru í sé mjög erfið, svo mjög að Thuy brestur í grát þegar hún er spurð um líðan þeirra. Þau hafa bæði orð á því að fjárhagslegir erfiðleikar skerði mikið lífsgæði þeirra en fjölskyldan framfleytir sér með launum Hao hjá endurvinnslufyrirtækinu Hringrás. Henni hefur verið boðið starf við ræstingar en má ekki taka því, þar sem hún hefur ekki fengið dvalarleyfi.
„Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda,“ svarar Hao spurður um hvað hann myndi gera ef allt færi á versta veg og Thuy yrði send úr landi.
Athugasemdir