Stjórnarskrárnefndin sem skipuð var eftir síðustu þingkosningar hætti við að leggja fram tillögu um framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu. Um er að ræða eitt af þeim fjórum málefnum sem ákveðið var að setja í forgang í upphafi nefndarstarfsins árið 2013. Að lokum lögðust hins vegar fulltrúar Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins í nefndinni gegn því að tillaga að slíku ákvæði yrði lögð fram.
Skúli Magnússon, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, fór hörðum orðum um vinnubrögð stjórnarskrárnefndar á fundi sem Lagastofnun hélt í hátíðarsal skólans í gær. Fullyrti hann að skortur á stjórnarskrárákvæði um framsal valdheimilda gerði Íslandi erfitt fyrir í alþjóðasamstarfi, sérstaklega í tengslum við EES-samninginn. Með því að falla frá tillögu um slíkt framsal hefði stjórnarskrárnefndinni mistekist að „standa undir þeirri ábyrgð að viðhalda íslenskri stjórnskipun og leysa úr þeim göllum sem á henni eru“ og að þessu leyti fengi „vinna nefndarinnar falleinkunn“.
„Vafamál um nákvæmar heimildir“
Fjallað er sérstaklega um framsal valdheimilda í áfangaskýrslu sem stjórnarskrárnefnd skilaði af sér í júní 2014. Bent er á að erlendis hafi þróunin verið með þeim hætti, í takt við aukið alþjóðlegt samstarf eftir síðari heimsstyrjöld, að ríki hafi sett í stjórnarskrár sínar ákvæði um framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana.
„Þótt slík heimild hafi talist vera fyrir hendi að vissu marki samkvæmt ólögfestum reglum íslenskrar stjórnskipunar, hefur aukin þjóðréttarleg samvinna, einkum samvinna á sviði EES-samningsins á síðustu árum, skapað vafamál um nákvæmar heimildir og í sumum tilvikum orðið tilefni deilumála. Þetta mælir með því að reglur stjórnskipunarinnar um þetta efni séu afmarkaðar og skýrðar,“ segir í skýrslunni auk þess sem fram kemur að Alþingi hafi fjallað um að minnsta kosti sjö mál þar sem vafi hefur verið uppi um heimildir til framsals ríkisvalds á grundvelli EES-samningsins.
Athugasemdir