Bændur spara sér rúmlega 108 milljónir króna á mánuði með því að nýta sér störf sjálfboðaliða í stað þess að borga þeim fyrir vinnu sína. Þetta sýna útreikningar Drafnar Haraldsdóttur, sem stýrir verkefninu Einn réttur – ekkert svindl, innan ASÍ. Hún gerði á dögunum óformlega könnun á því hversu mörgum sjálfboðaliðum væri verið að auglýsa eftir í landbúnaðarstörf um þessar mundir. Á tveimur síðum, Workaway og Helpx, taldi hún 280 auglýsingar eftir sjálfboðaliðum til að gegna sjálfboðaliðastörfum víða um land.
Dröfn segir brýna þörf á að skýra lög og reglur um sjálfboðaliðastörf og störf starfsþjálfunarnema. „Þessi mál eru í ólestri. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa skrifað undir sameiginlega yfirlýsingu um sjálfboðaliðastörf. Þar kemur fram að óásættanlegt sé að sjálfboðaliðar gangi í störf sem kjarasamningar gilda um. Það má ekki ráða til sín starfsmenn án þess að borga þeim neitt. Samkvæmt lögum 55/1980 eru samningar um lægri laun en kjarasamningar kveða á um ógildir. Því eru störf sjálfboðaliða, ef um efnahagslega starfsemi er að ræða og þeir ganga í störf sem kjarasamningar gilda um, ólögleg.“
Athugasemdir