Átta af níu bæjarfulltrúum Mosfellsbæjar telja að eðlilega hafi verið staðið að endurúthlutun lóðar í landi Sólvalla til MCPB vegna einkasjúkrahúss og hótels. Það hafi verið gert í samræmi við lög og reglur og í takt við yfirlýsta stefnu Mosfellsbæjar sem samþykkt hafi verið á síðasta kjörtímabili af öllum flokkum í bæjarstjórn.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu bæjarfulltrúanna sem send var út í kjölfar fréttaflutnings Stundarinnar frá því í gær. Var greint frá því að á fyrsta fundi bæjarstjórnarinnar eftir sumarfrí hefði Sigrún Pálsdóttir, fulltrúi Íbúahreyfingarinnar, bókað harða gagnrýni á vinnubrögð fulltrúa D- og S-lista í bæjarráði vegna úthlutunar lóða til einkasjúkrahúss og hótels með þyrlupalli. „Bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar átelur þau vinnubrögð fulltrúa D- og S-lista í bæjarráði Mosfellsbæjar harðlega að hafa í sumarfríi bæjarstjórnar úthlutað óþekktum aðilum í trássi við eðlilega verkferla samtals hundrað og tuttugu þúsund m2 af landi Mosfellsbæjar til eignar undir þrjátíu þúsund m2 einkasjúkrahús og -hótel með þyrlupalli,“ segir í bókun Sigrúnar.
Átta af níu bæjarfulltrúum hafa nú brugðist við með yfirlýsingu sem send var fjölmiðlum. Undir hana rita Haraldur Sverrisson bæjarstjóri, Bryndís Haraldsdóttir, Hafsteinn Pálsson, Kolbrún G. Þorsteinsdóttir, Theódór Kristjánsson, Bjarki Bjarnason, Anna Sigríður Guðnadóttir og Ólafur Ingi Óskarsson
„Fyrirvari er af hálfu Mosfellsbæjar um framlagningu upplýsinga um fjárfesta, viðskiptaáætlun, staðfestingu á fjármögnun og greiðslu gatnagerðargjalda. Ef þessum skilyrðum verður ekki fullnægt mun Mosfellsbær rifta samningnum. Jafnframt er með öllu óheimilt að veðsetja lóðina nema að fyrir liggi samþykki Mosfellsbæjar,“ segir í yfirlýsingunni.
„Fjárhagslegur ávinningur Mosfellsbæjar yrði mikill ef af umræddum framkvæmdum verður. Við erum þess fullviss að samningurinn um lóðarúthlutunina tryggi hagsmuni Mosfellsbæjar, hvernig sem málinu lyktar.“
Hér má sjá viðtal Sigurjóns M. Egilssonar við Harald Sverrisson, bæjarstjóra Mosfellsbæjar, um spítalaáformin sem sýnt var á Hringbraut þann 24. júlí síðastliðinn:
Athugasemdir