Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, sem tilkynnti í dag að hann hygðist sækjast eftir áframhaldandi setu á forsetastóli, ætlar að beita sér og taka áfram þátt í umræðum um stjórnarskrármálið og mögulegar stjórnlagabreytingar. Þetta kom fram á blaðamannafundi forseta á Bessastöðum í dag og sagðist hann hafa ýmislegt „persónulega“ fram að færa í stjórnarskrármálinu.
„Í minni forsetatíð hef ég tekið þátt í umræðu um stjórnarskrána,“ sagði Ólafur Ragnar og bætti því við að stjórnarskrármálið væri persónulegt áhugamál sitt. Sem kunnugt er gegndi hann um árabil stöðu prófessors í stjórnmálafræði við háskólann.
„Ég kenndi þessi fræði við Háskóla Íslands árum saman, og lagði mikla vinnu í rannsóknir og kennslu í þeim efnum, þannig ef ég má segja það sjálfur þá held ég að ég hafi líka persónulega svona ýmislegt fram að færa ásamt auðvitað ýmsum öðrum fræðimönnum í landinu í þessari umræðu til viðbótar við reynslu forsetans,“
Athugasemdir