Frétt RÚV í gær, þar sem fram kom að fjármálaráðherra hygðist sjálfur gegna stjórnarformennsku í einkahlutafélagi sem sér um sölu ríkiseigna, vakti mikla athygli. Stundin fjallaði um málið í morgun og setti í samhengi við umræður og nefndarálit af þinginu.
Nú hefur hins vegar fjármálaráðuneytið sent út fréttatilkynningu þar sem fram kemur að ekki standi til að ráðherra verði stjórnarformaður. „Vegna ranghermis í fréttum í tengslum við einkahlutafélag sem annast skal umsýslu og fullnustu stöðugleikaeigna, tekur fjármála- og efnahagsráðuneytið fram, að fjármálaráðherra gegnir ekki stjórnarformennsku í félaginu,“ segir í tilkynningunni.
Stundin ræddi við upplýsingafulltrúa ráðuneytisins sem sagði að aldrei hefði staðið til að Bjarni gegndi stjórnarformennsku í félaginu. Hefur RÚV beðist velvirðingar á mistökunum.
Eftirfarandi frétt birtist á vef Stundarinnar í morgun:
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, gagnrýnir þá tilhögun að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gegni sjálfur stjórnarformennsku í einkahlutafélagi sem annast umsýslu, fullnustu og sölu ríkiseigna sem til komnar eru af stöðugleikaframlögum.
Stundin fjallaði ítarlega um málið í morgun og vitnaði í nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis þar sem talað er um að verkefni einkahlutafélagsins verði „leyst í hæfilegri fjarlægð frá ráðuneytinu“. Nú er ljóst að fjármálaráðherra skipar ekki aðeins í stjórn félagsins heldur verður sjálfur stjórnarformaður þess.
„Ég studdi ekki þetta frumvarp og taldi að það fyrirkomulag að setja ráðstöfun þessara eigna í einkaeignarréttarlegt samhengi ynni gegn yfirlýstum markmiðum um gagnsæi og jafnræði,“ skrifar Katrín og bætir við: „En ég held að enginn hafi haft hugmyndaflug í það að fjármálaráðherra ætlaði sjálfur að verða stjórnarformaður félags um ráðstöfun stöðugleikaframlaga - en tilgangurinn með stofnun þessa félags var að halda hæfilegri fjarlægð frá ráðuneytinu og hinu pólitíska valdi eins og kemur fram í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar.“
Athugasemdir