Sigrún Pálsdóttir, fulltrúi Íbúahreyfingarinnar í Mosfellsbæ, segir ótækt að ekki hafi verið kannað hvort þeir aðilar sem vilja reisa einkasjúkrahús og hótel með þyrlupalli hafi fjárhagslega burði til framkvæmdanna áður en þeim var úthlutað samtals 120 þúsund fermetra landi í eigu Mosfellsbæjar.
Í samtali við Stundina segir hún ljóst að bæjaryfirvöld hafi skort forsendur til að meta arðsemi verkefnisins fyrir Mosfellinga. Í ljósi þess sé engin innistæða fyrir fullyrðingum meirihluta bæjarfulltrúa um að lóðaúthlutun til einkasjúkrahússins „tryggi hagsmuni Mosfellsbæjar“ eða að verulegur fjárhagslegur ávinningur sé af framkvæmdunum. „Það hefur einfaldlega ekki verið kannað hvort svo er,“ segir Sigrún.
Samkvæmt úthlutunarreglum Mosfellsbæjar ber lögaðila sem sækir um lóð að leggja fram mat frá viðskiptabanka eða fjármálastofnun ásamt greinargerð umsækjanda sjálfs um að viðkomandi geti staðið undir þeirri fjárfestingu sem áætluð er. Þetta var ekki gert þegar lóð í landi Sólvallar var úthlutað til fyrirtækisins MCPB ehf.
Að því er fram kemur í yfirlýsingu meirihlutans er hins vegar gerður fyrirvari af hálfu bæjarins um framlagningu upplýsinga um fjárfesta, viðskiptaáætlun, staðfestingu á fjármögnun og greiðslu gatnagerðargjalda. „Ef þessu skilyrðum verður ekki fullnægt mun Mosfellsbær rifta samningnum,“ segir í yfirlýsingunni.
Opnað fyrir veðsetningu lóða og kaupréttar
Úthlutun lóðanna fylgir réttur til veðsetningar og kaupa á þeim að fengnu leyfi Mosfellsbæjar. Þetta gagnrýndi Sigrún harðlega á fundi bæjarstjórnar í gær. „Þess ber að geta að handhöfum leyfist að veðsetja bæði lóðirnar, að fengnu leyfi Mosfellsbæjar, og líka kaupréttinn. Engin grein er gerð fyrir því í leigusamningi hvaða skilyrðum leyfi bæjarins fyrir veðsetningu verður háð og óskar Íbúahreyfingin eftir útskýringu á þvi,“ sagði hún í ræðu sinni.
Athugasemdir