Umtalaðasta myndband vikunnar er án efa myndbandið af því þegar Inga Auðbjörg Kristjánsdóttir, varaformaður Ungra jafnaðarmanna, bað Helga Hrafn Gunnarsson, þingmann Pírata, um að ganga í hjónaband fyrr í mánuðinum. Inga bjó til svokallað flashmob, eða leifturlýð, þar sem hópur fólks byrjar að dansa að því er virðist upp úr þurru á opinberum vettvangi. Hún birtist síðan sjálf í miðri þvögunni og bar upp bónorðið. Gjörningurinn var gerður í skátakastala í smábænum Rieneck í Þýskalandi þar sem hjónaleysin sóttu skátamót helgina fyrir páska. „Þetta er skátamót sem ég hef farið á síðustu tíu ár fyrir fullorðna listaskáta. Ég tók Helga með mér í fyrsta skipti í fyrra og honum fannst ægilega gaman þrátt fyrir að vera ekki skáti. Við fórum svo aftur í ár,“ segir Inga í samtali við Stundina. Hún segir fólkið sem sótti skátamótið vera hennar bestu vini og því hafi verið hægur leikur að fá það í lið með sér.
Hér má sjá afraksturinn:
Windows Customer Report kom til bjargar
„Ég var löngu búin að ákveða að gera flash-mob og var búin að segja öllum í kringum mig að ég ætlaði að gera þetta um páskana. Það var því enginn séns fyrir mig að bakka út úr því þegar á hólminn var komið. Svo átti ég til þennan dans, ef ég á að segja alveg eins og er, og við æfðum hann daginn áður á meðan Helgi var að læra esperantó. Þetta er einfaldari dans en hann lítur út fyrir að vera,“ segir Inga hógvær.
Eftir gjörninginn safnaði Inga saman upptökum af gjörningnum og ákvað að klippa sjálf saman myndbandið fræga. Það gekk hins vegar ekki þrautarlaust fyrir sig. „Forritið „krassaði“ eftir sex tíma klippivinnu,“ segir hún hálfglettin. „En Windows Customer Report bjargaði mér. Ég bjóst ekki við að það myndi gera eitt eða neitt að gagni.“
Í háska á Hverfisgötu
Eins og frægt er orðið vakti uppátæki Ingu talsverða athygli eftir að myndbandinu var dreift á netinu. Inga segir viðbrögðin hafa verið mjög mikil, sérstaklega á samfélagsmiðlum en hún hefur einnig fundið fyrir athyglinni í hinu daglega amstri. „Einn var næstum því búinn að keyra yfir mig á Hverfisgötunni því hann bara varð að stoppa og heilsa,“ segir Inga en henni var sem betur fer ekki meint af.
„Ástæðan fyrir því að ég setti þetta á netið er fyrst og fremst sú að ég vildi leyfa vinum mínum og fjölskyldu, sem ekki áttu tök á því að vera á skátamóti í Þýskalandi um páskana, að sjá þetta.“
Ákvað þetta á fimmta degi
Eitt af því sem hefur vakið athygli er sú staðreynd að Inga var sú sem bar upp bónorðið í sambandinu, en ekki Helgi. „Það er merkilegt hvað það er viðtekið í samfélaginu að konur eigi að vera þiggjendur og karlmenn gerendur í þessu. Kannski ekki eins mikið á Íslandi. Flestir í kringum mig hafa bara tekið sameiginlega ákvörðun um að ganga í hjónaband. En ef þú til dæmis gúgglar „Should a woman propose?“ þá færðu bara „nei, nei, nei, þú gætir alveg eins skorið af honum typpið! Hann verður niðurlægður.“
„Við erum bara búin að vera saman í tvö ár, en þetta er bara svo „meant to be“.
Inga segist hafa ákveðið á fimmta degi sambandsins að hún ætlaði að biðja Helga. „Ég held ég hafi komið því til skila snemma að það kæmi aldrei til greina að hann fengi að biðja mín. En hann er búinn að „hinta“ að því nokkrum sinnum að það sé nú farið að draga á langinn. Við erum bara búin að vera saman í tvö ár, en þetta er bara svo „meant to be“. Maður veit það þegar maður veit það.“
Skipulagt hjónaband
Þrátt fyrir að vera bæði boðberar nýrra tíma í stjórnmálum kynntust Inga og Helgi með heldur gamaldags hætti. „Mamma hans ákvað að við ættum að vera saman. Þetta er í rauninni „arranged marriage“,“ segir Inga og hlær. „Hún bauð mér í matarboð og við höfum bara verið saman síðan í þessu matarboði.“
Þegar Inga og Helgi kynntust fyrir tveimur árum var hún kosningastjóri hjá Ungum jafnaðarmönnum og gegnir nú stöðu varaformanns Ungra jafnaðarmanna. Hafa ólíkar flokkslínur engin áhrif á sambandið?
„Við erum sammála um að hafa áhuga á pólitík,“ útskýrir Inga. „Ég held að ungt fólk sem hefur áhuga á pólitík sé mjög oft sammála, þvert á flokka, um flest mál. Ég hef alveg drukkið bjór með sjálfstæðismanni og við vorum sammála um hvað þurfi fyrir ungt fólk.“
Að lokum, hvenær verður síðan stóri dagurinn? „Ég veit það ekki,“ svarar Inga. „Einhvern tíma árið 2016 geri ég ráð fyrir.“
Athugasemdir