Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra víki sæti við meðferð tillögu Minjastofnunar Íslands um friðlýsingu hafnargarðsins á lóðinni Austurbakka 2 í Reykjavík. Þetta kemur fram í athugasemdum borgarlögmanns sem sendar voru forsætisráðuneytinu þann 9. október síðastliðinn. Í bréfinu er því haldið fram að með friðlýsingu yrði gengið miklu lengra en nauðsynlegt geti talist til að tryggja vernd og varðveislu hafnargarðsins.
Samkvæmt lögum um menningarminjar kemur það í hlut ráðherra að friðlýsa menningarminjar, eða afnema friðlýsingu þeirra, að fenginni tillögu Minjastofnunar. Sú stofnun heyrir nú undir forsætisráðherra og dregur borgarlögmaður í efa stjórnsýslulegt hæfi Sigmundar Davíðs til þess að taka afstöðu til þess erindis Minjastofnunar sem hér er fjallað um.
„Í fyrsta lagi skal bent á að í grein á heimasíðu sinni, sigmundurdavid.is, sem birtist hinn 27. ágúst sl., fjallar forsætisráðherra um uggvænlega þróun í skipulagsmálum borgarinnar eins og hann kýs að kalla það,“ segir í bréfi Kristbjargar Stephensen borgarlögmanns.
Er bent á að í niðurlagi greinarinnar hafi forsætisráðherra sérstaklega vísað til umrædds hafnargarðs. Orðrétt skrifaði forsætisráðherra: „Fornleifar sem fundust á lóðinni við hlið Iðnaðarbankahússins verða friðaðar sem og hafnargarðurinn við hinn enda Lækjargötunnar.“
Þegar komið að málinu
Einnig kemur fram að forstöðumaður Minjastofnunar hafi upplýst um það á fundi borgarráðs 1. október að forsætisráðherra hefði nú þegar komið að málinu á fyrri stigum. „Upplýsti forstöðumaðurinn um að ráðherra hefði á fundi í ráðuneytinu síðastliðið sumar fengið kynningu frá stofnuninni á því sem komið hefði í ljós við fornleifarannsóknir á svæðinu.
Athugasemdir