Kona á fimmtugsaldri var flutt í skyndi með sjúkraflugi frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur á laugardagsmorgun. Samkvæmt heimildum Stundarinnar fannst konan meðvitundarlaus í húsgarði rétt hjá öldurhúsi í bæjarfélaginu. Konan er sögð hafa fundist nakin og með mikla áverka, meðal annars á höfði. Töldu heimildarmenn Stundarinnar að konan hafi höfuðkúpubrotnað.
Lögreglan í Vestmannaeyjum verst allra fregna af málinu. Einu upplýsingarnar sem fengust frá embættinu voru þær að lögreglan væri að rannsaka mál sem hafi komið upp um helgina. Hvort um væri að ræða þjófnað, líkamsárás, íkveikju eða kynferðisbrot sagðist yfirlögregluþjónn embættisins ekki geta tjáð sig um það.
„Þetta er mjög óhugnarlegt mál og fólki hér er brugðið,“ segir íbúi í Vestmannaeyjum sem Stundin ræddi við. Mikið af fólki hafi verið samankomið á eyjunni um helgina til þess að skemmta sér, bæði íbúar og aðkomufólk. Rætt sé um þetta alvarlega atvik nú eftir helgina en að litlar upplýsingar sé að fá um hvað hafi í raun og veru gerst.
Stundin hafði samband við starfsmann neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisofbeldis á Landspítalanum sem staðfesti að einn einstaklingur hafi leitað til þeirra um helgina. Þá hefur einnig verið staðfest að flogið var slaðasan einstakling frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur þennan laugardag, 17. október.
Eins og áður segir veitir lögreglan í Vestmannaeyjum engar upplýsingar um málið. Það er í takt við stefnu embættisins undir forystu lögreglustjórans Páleyjar Borgþórsdóttur.
Uppfært 18:30
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, staðfesti nú undir kvöld frétt Stundarinnar í samtali við DV. Hún segir að grunur leikur á að konan sem fannst nakin utandyra hafi verið beitt kynferðisofbeldi aðfaranótt laugardags. Þá hafi lögreglan handtekið mann á heimili sínu sömu nótt sem hún grunar að hafi veitt konunni áverkana. Farið var fram á gæsluvarhald yfir manninum en þeirri beiðni var hafnað af héraðsdómi. Sá úrskurður var kærður til hæstaréttar og er niðurstöðu að vænta á morgun.
Þá segir Páley að rannsókn málsins sé á viðkvæmu stigi en ekki hefur tekist að ljúka skýrslutöku fórnarlambsins nema að hluta til.
Athugasemdir