Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, stærsta stéttarfélag Íslands, óskaði eftir því að fá að halda ræðu á samstöðufundi verkalýðsfélaganna sem haldinn verður á Ingólfstorgi í dag en fékk ekki. Frá þessu greindi hann á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi. Ellen Calmon, formaður Öryrkjabandalags Íslands, hefur sagt frá því að undanfarin ár hafi hún ekki fengið að halda ræðu á sameiginlegum fundi verkalýðsfélaganna.
Ellen og Ragnar ætla því að halda ræður á útifundinum sem fram fer á Austurvelli að frumkvæði Sósíalistaflokks Íslands á sama tíma, en flokkurinn verður formlega stofnaður í dag. Yfirskrift útifundarins á Austurvelli er: „Við viljum hreyfinguna okkar aftur“ og í fréttatilkynningu um fundinn er kallað eftir því að verkalýðsfélögin séu endurvakin sem baráttutæki launafólks fyrir réttlátu samfélagi. Gunnar Smári Egilsson, fyrrverandi ritstjóri Fréttatímans og talsmaður Sósíalistaflokksins, er einn þeirra sem flytja ræður á Austurvelli ásamt Ellen og Ragnari.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, gagnrýndi uppátæki Sósíalistaflokksins harðlega í samtali við RÚV í gær og sagðist eiga erfitt með að skilja hvernig sundrung sem þessi ætti að hjálpa verkalýðsbaráttunni.
Þá tjáir Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar og einn af þremur þingmönnum flokksins, um málið á Facebook og setur yfirskrift Austurvallarfundarins í samhengi við kosningaslagorð Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
„Yfirskriftin á baráttufundi á 1. maí Við viljum samfélagið okkar aftur! minnir mig óþægilega á Make America great again. Þetta er yfirskriftin á baráttufundi á 1. maí þar sem m.a. formaður VR, Ellen Calmon frá ÖBÍ og Gunnar Smári stofnandi Sósialistaflokksins flytja ræður,“ skrifar Oddný. Áður hefur hún beðið stofnendur Sósíalistaflokksins um að hugsa sig tvisvar um og ganga frekar til liðs við Samfylkinguna.
Athugasemdir