Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði í kvöldfréttum RÚV áðan að hann hefði fyrst í gær frétt af áformum um að reisa einkasjúkrahús í Mosfellsbæ.
Á vef Burbanks, móðurfélags fyrirtækisins MCPB ehf sem hefur fengið úthlutað lóð til framkvæmdarinnar, er að finna mynd af Kristjáni Þór ásamt Henri Middeldorp, fjárfesti sem kemur að verkefninu, og Pedro Brugada, þekktum hjartalækni sem verður einn af stjórnendum hátæknisjúkrahússins.
Stundin hefur ekki náð tali af Kristjáni en í umræðum um málið á Facebook segir hann að myndin sé tekin þegar læknirinn kynnti honum hugmyndir sínar um að opna skurðstofu í Klíníkinni í Ármúla í maí.
„Engin umræða um þessar áformuðu framkvæmdir við spítalabyggingu fóru þar fram, né hafa farið fram eftir heimsóknina. Heyrði fyrst af þessu í fréttum RÚV,“ skrifar Kristján.
Eins og RÚV greindi frá í gær samþykkti bæjarráð Mosfellsbæjar að úthluta félaginu MCPB ehf lóð undir 30 þúsund fermetra einkasjúkrahús í samstarfi við Brugada. Framkvæmdin mun kosta um 50 milljarða eða álíka mikið og nýr Landspítali. Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri Mosfellsbæjar og og flokksfélagi Kristjáns Þórs, hefur undirritað samkomulagið um lóðina.
Fram kemur í greinum sem Burbanks Capital deilir á Facebook að Pedro Brugada hafi hitt íslenska heilbrigðisráðherrann í maí. „Í síðustu viku hitti ég velferðarráðherra, sem svo kynnti mig fyrir heilbrigðisráðherra, Kristjáni Þór Júlíussyni. Stjórnmálamennirnir eru svo opnir. Þetta er eins og að fara í heimsókn til fjölskyldumeðlims,“ segir í grein sem birtist í byrjun sumars auk þess sem fram kemur að læknirinn sé spenntur fyrir genabanka DeCode.
Haft var eftir fjárfestinum Henri Middeldorp í fréttum RÚV í gær að samkomulag hefði verið gert við íslensk heilbrigðisyfirvöld. Kristján Þór sagði hins vegar í viðtalinu í kvöld að hann kannaðist ekki við slíkt samkomulag. „Ég heyrði fyrst af þessum fjárfestingaráformum í fréttum ykkar,“ segir hann og bætir við: „Við höfum ekki gert neitt samkomulag eins og ég skil fréttirnar þá er þarna áform um uppbyggingu 1000 manna vinnustaðar, það höfum við hvorki heyrt af né rætt.“
Fjöldi fólks hefur vakið athygli á málinu á samfélagsmiðlum og er Kristján Þór gagnrýndur harðlega. Hann svarar og segir að umrædd framkvæmd hafi ekki verið rædd þegar hann hitti Pedro Brugada hjartalækni í maí.
Athugasemdir