Mikil ólga er nú meðal starfsmanna Plain Vanilla, framleiðanda spurningaleiksins QuizUp. Þrátt fyrir að tæplega hundrað manns vinni hjá fyrirtækinu, sem hefur vaxið ört síðustu misseri, er þar enginn starfandi trúnaðarmaður. Í stað trúnaðarmanns hangir tafla upp á vegg á skrifstofunni, þar sem ætlast er til að starfsmenn komi athugasemdum á framfæri, sem annars færu til trúnaðarmanns.
Starfsmenn hafa ekki verið sáttir við þetta fyrirkomulag. Hefur verið vaxandi þrýstingur innan félagsins að kosinn sé trúnaðarmaður innan þess, eins og kveðið er á um í lögum og kjarasamningum. Sá starfsmaður sem hvað harðast hafði gengið fram í þeirri kröfu, og var kominn með nægan stuðning til þess að hljóta kjör, var svo rekinn, viku áður en kosningin fór fram. Hann sendi bréf til Þorsteins Friðrikssonar, forstjóra fyrirtækisins, þar sem hann útlistar vandamál félagsins.
Reglulega birtast fréttir þar sem Plain Vanilla er málað sem einn eftirsóttasti vinnustaður á landinu. Vísir birti í fyrra frétt þar sem greint var frá því að kokkur frá Argentínu eldaði hádegismat, Nútíminn birti matseðilinn og Viðskiptablaðið greindi frá því að starfsmenn fengju vörur frá Apple.
Stundin náði tali af Þorsteini Friðrikssyni, forstjóra fyrirtækisins, þar hann var staddur í San Francisco um miðja nótt á staðartíma. Hann sagði fyrst að hann kannaðist ekkert við ólgu á meðal starfsmanna en þegar bréf trúnaðarmannsins var borið undir hann kaus hann að tjá sig ekki um málið. Ekki náðist í Gunnar Hólmstein Guðmundsson, rekstrarstjóra félagsins, við vinnslu fréttar.
Uppfært kl. 16:20: Starfsmaðurinn sem var rekinn á dögunum hafði samband við Stundina og vildi að það kæmi skýrt fram að hann hafi ekki afhent Stundinni tölvupóst sinn til Þorsteins. Stundin hafði samband við manninn við vinnslu fréttar og vildi hann þá ekki tjá sig opinberlega um málið.
Tússtafla í stað trúnaðarmanns
Umræddur fyrrverandi starfsmaður sendi Þorsteini Friðrikssyni, forstjóra fyrirtækisins, langt bréf í kjölfar brottrekstursins. Í bréfinu, sem Stundin hefur undir höndum, kemur fram að undanfarið hafi starfsmannamál félagsins verið í lamasessi. Líkt og hefur komið fram er enginn trúnaðarmaður en í stað hans kemur tússtafla í almennu rými þar sem starfsmenn eiga að skrifa niður áhyggjur sínar. Samkvæmt bréfi tilvonandi trúnaðarmanns var spurt á töflunni hvers vegna enginn trúnaðarmaður væri á vinnustaðnum. Þeirri spurningu á Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, rekstrarstjóri félagsins, að hafa svarað á þann veg að slíkt væri ónauðsynlegt þar sem allir væru duglegir að ræða málin á persónulegum og tilfinningalegum nótum.
Athugasemdir