Ólafur Ólafsson og Sigurður Einarsson, fangar á Kvíabryggju, sem dæmdir voru í fangelsi fyrir markaðsmisnotkun í aðdraganda falls Kaupþings banka, fengu sér ís með dýfu í sjoppu í Ólafsvík í lok síðustu viku, þrátt fyrir að nú standi yfir afplánun þeirra vegna alvarlegra efnahagsbrota í aðdraganda bankahrunsins.
„Fangar eiga ekki að fá heimild til að fara í sjoppur,“ segir Páll Winkel fangelsismálastjóri um málið. „Það er einfaldlega þannig. Það sem ég myndi vilja segja um þetta mál er að ég er búinn að óska eftir skýringum og síðan verður tekin ákvörðun í framhjaldi af því,“ bætir hann við.
Viðskiptavinur undrast „sérmeðferð“
Ólafur Ólafsson var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti fyrir ári og Sigurður Einarsson í fjögurra ára fangelsi í Al Thani-málinu svokallaða, sem snerist um sýndarviðskipti Kaupþings. Í málinu var Al Thani lánað fyrir kaupum á 5% hlut í Kaupþingi til að kaupa hlutabréf í bankanum, en látið í veðri vaka að Al Thani hefði keypt hlut í bankanum af sjálfsdáðum. Sigurður var einnig dæmdur til eins árs refsiauka vegna „Stóra markaðsmisnotkunarmálsins“.
Viðskiptavinur ÓK-veitingasölunnar í Ólafsvík, sem var viðstaddur þegar Ólafur og Sigurður komu í fylgd fangavarðar, taldi atvikið „súrrealískt“ þar sem alþekkt væri að mennirnir afplánuðu fangelsisdóm fyrir alvarleg afbrot.
„Á meðan þjóðfélagið skelfur vegna aflandsmála stjórnmálamanna þá ganga mennirnir sem þó hafa verið dæmdir fyrir sinn hlut í hruninu nánast lausir, virðast hafa það nokkuð gott og njóta sérmeðferðar í fangelsi,“ segir Gylfi Blöndal leiðsögumaður.
Ekki algengt
Að sögn Páls Winkel er hugsanlegt að fangar geti farið út í erindagjörðum sem yfirmenn í fangelsi hafa samþykkt. Hann hefur óskað eftir skýringum vegna málsins. „Það er erfitt að setja reglur um öll frávik, en maður verður líka að treysta á heilbrigða skynsemi. En þetta er ekki algengt. Það er okkar sem stýrum þessu að hafa reglurnar þannig að menn þurfi ekki að velkjast í vafa. Það er líka mikilvægt að rjúka ekki í nornabrennur og taka sér tíma í þetta.“
Ósáttir við meðferðina
Sigurður og Ólafur eru báðir ósáttir við meðferðina á sér í tengslum við efnahagsbrot þeirra. Þeir greindu frá því í viðtali við Stöð 2 að þeir teldu stærstu mistök sín hafa verið að treysta á dómskerfið. Þeir hafa einnig verið ósáttir við meðferðina í fangelsinu. Ólafur og Sigurður, ásamt meðfanga þeirra, Magnúsi Guðmundssyni, hafa leitað til umboðsmanns Alþingis vegna starfa Páls Winkels, meðal annars vegna upplýsingagjafar hans til fjölmiðla. Þeim gramdist að Páll hefði greint frá því að „ákveðnir fangar“ hefðu farið fram á að neyta rauðvíns og annarra áfengra drykkja með mat, en því hafi verið hafnað, en slík beiðni barst ekki frá þeim.
Þá segja fangarnir að bandaríski heimildamyndagerðarmaðurinn Michael Moore hafi fengið aðgang að fangelsinu og náð myndum af þeim. Ísland verður í aðalhlutverki í næstu mynd Moore.
Athugasemdir