Ásmundur Einar Daðason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, telur að það liggi ekkert á að kjósa til Alþingis og vill að fjárlög ársins 2017 verði afgreidd áður en næstu þingkosningar fara fram. Þetta kemur fram í pistli sem hann birtir á Eyjunni í kvöld. Pistillinn fjallar um hve brýnt sé að ráðist verði í framkvæmdir vegna Dýrafjarðarganga fyrir kosningar.
„Áður en kosningum verður flýtt þá skulum við klára að afgreiða fjárlög fyrir árið 2017 og tryggja þannig fjármagn til verkefnisins á næsta ári,“ skrifar Ásmundur. Þetta er á skjön við þann skilning sem lagður hefur verið í málflutning Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi. Til dæmis hefur því verið slegið upp í fyrirsögn á Mbl.is að fjárlög verði ekki afgreidd fyrir kosningar.
Sem kunnugt er hafa Bjarni og Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra gefið fyrirheit um að kosið verði í haust. Á fundi þeirra með fulltrúum stjórnarandstöðunnar fyrir helgi kom fram að stefnt væri að kosningum í október. Oftast eru fjárlög afgreidd út úr þinginu seinni partinn í desember. Ef hugmyndir Ásmundar eiga að samræmast fyrirheitum Bjarna og Sigurðar er hins vegar ljóst að ljúka þarf afgreiðslu fjárlaga fyrr en venjan er.
Athugasemdir