„Mér leið eins og ég væri fastur í helvíti,“ segir maður sem neytti nýs fíkniefnis sem nú er komið til landsins.
Um er að ræða verksmiðjuframleitt fíkniefni sem heitir 2C-B. Það er boðið til sölu í lokuðum íslenskum söluhópum á samfélagsmiðlinum Facebook. Efnið er örvandi, veldur miklum ofskynjunum og getur sett neytanda þess í lífshættu með ýmsum hætti. Efnið sjálft er ekki nýtt þar sem það var fundið upp af efnafræðingnum Alexander Theodore Shulgin árið 1974 en hann hefur oft verið kallaður guðfaðir e-töflunnar. Fíkniefnið er hins vegar nýtt á markaði hér en það fór fyrst að bera á því á síðasta ári.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar kom efnið þó ekki í það miklu magni á síðasta ári að hægt væri að selja það í fíkniefnasöluhópum á samfélagsmiðlum. Í ár hins vegar kom stór sending af efninu hingað til lands og hefur neysla þess farið vaxandi undanfarnar vikur og mánuði.
Athugasemdir