„Reynsla mín í námi, vinnu og lífinu sjálfu hefur kennt mér að oft má rekja vanlíðan til erfiðleika í samskiptum. Oft tengjast þessir erfiðleikar einhverju sem gerðist þegar við vorum lítil,“ segir Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir, hjúkrunarfræðingur og höfundur bókarinnar Samskiptaboðorðin, sem er nýkomin í hillur bókabúða. Í henni kynnir Aðalbjörg til sögunnar sex samskiptaboðorð sem ætlað er að hjálpa fólki að bæta samskipti sín. Bókin er sérstök fyrir þær sakir að Aðalbjörg notar dæmi úr eigin lífi til að sýna hvernig nýta megi samskiptaboðorðin.
„Þessi bók byggir á alls kyns samskiptum sem ég hef staðið í, allt frá því ég var lítil og fram til dagsins í dag. Á undanförnum tveimur árum hef ég kafað ofan í líf mitt og skoðað samskipti mín við aðra í gegnum tíðina. Bókin er í raun saga mín í ljósi samskiptaboðorðanna. Hún er mjög persónuleg.“
Athugasemdir