Flestir hafa gerst sekir um að hugsa í staðalímyndum. Um kláru nördana sem liggja og lesa bækur á meðan íþróttafríkin fara í krumpugalla og hlaupa í hringi í tilraun til þess að hugsa sem minnst. Í fyrstu virðist þetta vera ósanngjörn einföldun en nýleg könnun Journal of Health Psychology bendir til þess að þarna sé þó einhvern sannleika að finna.
Todd McElroy, sem stýrði teymi vísindamanna við Florida Gulf Coast háskóla lagði prófið „Þörf til hugsunar“ [e. Need for Cognition] fyrir fjölda nemenda í tilraun til þess að finna 30 einstaklingar sem sýndu þörf fyrir að hugsa mikið, og svo aðra 30 einstaklinga sem sýndu mikla þörf á því að forðast allt sem krafðist mikillar hugsunar.
Hugsa mikið / gera lítið
Prófið, sem hefur verið til í rúma þrjá áratugi, lætur fólk svara því hversu sammála eða ósammála það er ákveðnum fullyrðingum, eins og til dæmis „Mér finnast verkefni þar sem ég þarf að finna upp á nýjum lausnum mjög ánægjuleg“ og „Ég hugsa aðeins eins mikið og ég þarf“. Þeir 30 þáttakendur sem hugsuðu mest og 30 sem hugsuðu minnst voru svo látnir ganga með hreyfiskynjara á sér í 7 daga, til þess að mæla líkamlega virkni.
Niðurstöðurnar voru þannig að hugsuðurnir voru mun minna virkir frá mánudegi til föstudags en þeir sem minna hugsa. Munurinn var svo mikill að rannsakendur sögðu hann „gríðarlegan“ og „mjög markverðan.“ Um helgar var hins vegar enginn munur á virkni hópanna.
Hugsa lítið / gera mikið
Niðurstöðurnar um virku dagana kemur heim og saman við aðra rannsókn sem gerð var á tíunda áratugnum sem sýndi fram á að fólk sem hugsar minna er líklegra til þess að láta sér leiðast og að finnast það að leiðast vera ömurleg upplifun. Í rannsókninni eru leiddar að því líkur að fólk sem hugsar minna þurfi meiri líkamlega virkni til þess að forðast hugsanir sínar.
Þrátt fyrir að úrtakið hafi verið lítið, og að taka verði það inn í niðurstöðuna, varaði McElroy við því að greindir einstaklingar, og latari, þyrftu að hugsa um það að hreyfa sig meira vegna neikvæðra áhrifa sem hinn rólegi lífstíll getur haft í för með sér. Sagði hann að fólk sem sýndi minni líkamlegri virkni ættu að miða að því að hreyfa sig meira til þess að bæta heilsu sína.
Tímaritið British Psychologial Society vitnaði í könnunina og sagði að vonandi fengi hún hugsandi einstaklinga til þess að verða meðvitaðri um hreyfingarleysi sitt. „Meðvitund þeirra um hversu litla virkni þau sýna, ásamt meðvitund um afleiðingar þess að hreyfa sig lítið mun vonandi verða til þess að hugsandi fólk finnur meiri hvata til þess að hreyfa sig meira.“
Athugasemdir