Gamall hvítur köttur liggur í makindum á þrepinu við útidyrnar og virðist bylt við þegar hann sér blaðamann nálgast heimili Stefáns Jóns í Grafarvoginum. Þetta er persneski öldungurinnn Goði. Þegar dyrnar opnast tekur önnur og stærri skepna á móti mér, tíkin Freyja sem er af afrísku ljónahundakyni. Hér búa augljóslega dýravinir.
Guðrún Kristín Sigurðardóttir, hönnuður og eiginkona Stefáns, býður upp á kaffi og súkkulaðidropa inni í sólstofu þar sem við setjumst niður og njótum veðursins, sem í dag gefur hugsanlega von um vor og bjartari tíma. „Ég er enn að jafna mig eftir ferðalagið. Það tekur alltaf nokkra daga að ná áttum,“ byrjar Stefán Jón, en hann er nýkominn heim frá Úganda þar sem hann starfar sem forstöðumaður sendiráðs Íslands sem einbeitir sér að þróunarsamvinnu. Heimilið ber þess merki. Á veggnum fyrir ofan okkur er til að mynda stór mynd af tignarlegri antílópu sem hlýtur að vera tekin á sléttum Afríku.
Athugasemdir