Skúli Á. Sigurðsson, verkefnastjóri hælissviðs hjá Útlendingastofnun, segir að haft hafi verið samráð við íranskan hælisleitanda áður en starfsfólk Útlendingastofnunar tæmdi herbergi hans og flutti eigur hans á annan stað. Þetta hafi verið gert „á vandaðan hátt og með virðingu fyrir þeim munum sem maðurinn hafði í híbýlum sínum“.
Um er að ræða sama mann og hótaði að kveikja í sér fyrir utan höfuðstöðvar Rauða krossins í lok ágúst. Eins og Stundin greindi frá í september fóru starfsmenn Útlendingastofnunar inn í íbúð mannsins og gengu frá eigum hans, meðal annars fjölskyldumyndum, meðan hann var vistaður á geðsviði Landspítalans. Hælisleitandinn hefur sagt að ekki hafi verið haft samráð við sig og gerði starfsmaður Rauða krossins athugasemd við vinnubrögð Útlendingastofnunar.
Í tölvupósti Skúla Á. Sigurðssonar til Stundarinnar kemur fram að bæði hafi verið rætt við skjólstæðing Útlendingastofnunar og heilbrigðisstarfsfólk áður en herbergið var tæmt.
Athugasemdir