Fimmtugur norskur ferðamaður var stöðvaður af lögreglu við koma til Íslands í morgun. Ástæðan sem hann fékk frá lögreglunni á Suðurnesjum var að hann sé meðlimur í mótorhjólasamtökunum Devil´s Choice. Að sögn íslensks vinar hans sem kom með honum til landsins var gerð leit á bæði líkama hans og farangri. Að sögn Guðmundar St. Ragnarssonar, lögmanns Norðmannsins, hefur karlmaðurinn hreina sakaskrá í Noregi, en hann starfar þar við olíuvinnslu í Norðursjó.
„Hann var færður til viðtals og ég er í þessum töluðu orðum að keyra til Keflavíkur til að vera viðstaddur skýrslutöku. Ég get voða lítið tjáð mig um málið fyrir en eftir hana,“ segir Guðmundur. Hann segist ekki geta staðfest að maðurinn sé meðlimur í Devil´s Choice.
Íslenskur vinur Norðmannsins, sem kom með honum til landsins í morgun, segir í samtali við Stundina að félagi sinn hafi ekki verið merktur mótorhjólasamtökunum og hafi aðeins komið hingað til að skoða íslenska náttúru. Hann segir enn fremur að Devil´s Choice sé ekki til á Íslandi í dag og því ómögulegt að félagi sinn hafi komið til landsins til að stunda ólöglega starfsemi. „Hann er með flug aftur út næsta föstudag og ég er hræddur um að hann verði í fangaklefa fram að því,“ segir vinur karlmannsins. Þar sem karlmaðurinn hefur ekki verið formlega handtekinn heldur aðeins verið meinaður aðgangur til Íslands þá er óljóst hve lengi honum verður haldið í fangaklefa, en dæmi eru um í sambærilegum málum að slík vist geti varið í fleiri sólarhringa.
Líkt og fyrr segir hafa mótorhjólasamtökin Devil´s Choice verið lögð niður hér á landi. Samtökin hétu áður Hog Riders og voru um tíma svokölluð stuðningssamtök Vítisengla. Árið 2013 var 6 meðlimum í samtökunum vísað frá landi við komu til Íslands og var sú ákvörðun byggð á hættumati greiningardeildar Ríkislögreglustjóra sem hefur skilgreint samtökin sem glæpasamtök.
Athugasemdir