Starfsmenn Útlendingastofnunar fóru inn í íbúð hælisleitanda og handléku eigur hans, meðal annars fjölskyldumyndir. Maðurinn segist ekki hafa vitað af þessu né veitt starfsmönnunum leyfi til að fara inn í herbergi sitt.
Atvikið olli manninum miklu hugarangri og í kjölfar þess hætti hann tímabundið að borða og drekka, sagði komið fram við sig eins og dauðan mann og að ef til vill væri bara best að deyja. Samkvæmt upplýsingum frá Rauða krossinum gerðu samtökin athugasemd við vinnubrögð Útlendingastofnunar.
Þeir lögfræðingar sem Stundin hefur rætt við telja augljóst að maðurinn hafi orðið fyrir ólögmætri röskun á friðhelgi einkalífs og heimilis. Vinnubrögðin hljóti að ganga í berhögg við þau réttindi sem kveðið er á um í stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Útlendingastofnun hefur brugðist illa við spurningum Stundarinnar um málið og ekki svarað fyrirspurn sem var send fyrir meira en viku.
Athugasemdir