Ekkert lát er á vinsældum Twitter-herferðar gegn hversdagslegu kynjamisrétti, #6dagsleikinn. Þar hafa fjölmargir tjáð reynslu sína af hversdagslegu misrétti, nú síðast rithöfundurinn og baráttukonan Þórdís Elva Þorvaldsdóttir sem greindi frá óviðeigandi framgöngu lögreglumanns: „Þegar ég var látin blása og reyndist edrú en löggan hvatti mig til að drekka undir stýri svo hann gæti „tekið mig næst“.“ #6dagsleikinn.
Fleiri hafa tekið dæmi af samskiptum við lögregluna. Ásdís Hjálmsdóttir sagði frá símtali sem sat í henni: „Símtal frá löggunni eftir að stelpu sem ég skutlaði niðri bæ var nauðgað: Var hún mjög drukkin? Hvernig var hún klædd? #6dagsleikinn“
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir lýsti óskemtilegri reynslu frá því að hún starfaði sem lögreglukona: „Lögreglukonur eru alltaf svo leiðinlegar“ eftir að hafa sagst langa að taka mig „aftanfrá“ þegar ég var að stöðva hann fyrir brot #6dagsleikinn“
„Lyftingar eru bara fyrir karlmenn og trukkalessur“
Annars hafa dæmin verið jafn ólík og þau eru mörg. Ragnhildur Þórðardóttir, eða Ragga nagli eins og hún er oftast kölluð, tók saman nokkur mismunandi dæmi um hversdagslegt misrétti sem hún hefur orðið fyrir. Eins og því þegar hún var ítrekið klipin í rassinn þegar hún gekk á undan forstjóra spítala upp stiga í jólaboði.
„„Í partýi var vinur Naglans spurður: “Hver á þessa?” og benti síðan á Naglann.
„Af hverju áttu ekki börn?“ En Naglabóndinn fær ekki sömu spurningu.
„Hendurnar á þér eru eins og á karlmanni.“
„Það er nú ekki mjög kvenlegt að rymja svona í réttstöðulyftu.“
Labba heim úr ræktinni í þröngri brók og vera flautað á af verkamönnum.
Á djamminu: „Hey þú! Viltu ríða?“
Ganga upp stiga á undan forstjóra Bispebjerg-spítala í jólagleði og vera klipin nokkrum sinnum í rassinn á leiðinni.
„Ættirðu ekki að finna þér eitthvað fágaðra sport? Lyftingar eru bara fyrir karlmenn og trukkalessur“
„Kallinn þinn hefur aldeilis keypt köttinn í sekknum,“ þegar Naglinn sagðist ekki strauja skyrtur bóndans, heldur gerði hann það sjálfur.
Undir umræðu um brjóstagjöf á almannafæri: „Þú þarft nú ekki að hafa áhyggjur, það er hvort eð er ekkert að sjá hjá þér.“
Já, hann er heldur betur hressandi hversdagsleikinn.
En hann gerir okkur kvensurnar bara sterkari.
'Girl power' alveg niður í görn.“
„Yfirmaður minn glottir og byrjar „í djóki“ að losa beltið“
Hanna María var heldur óheppin með yfirmann: „Var verkefnalaus í vinnunni og spurði hvort ég gæti gert eitthvað. Yfirmaður minn glottir og byrjar „í djóki“ að losa beltið. #6dagsleikinn“
Sonja Sigríður segir: „Þegar ókunnugur maður talar við vin sinn, bendir á mig og segir svo: „Þessa myndi ég til dæmis alveg misnota kynferðislega.“ #6dagsleikinn“
Alma Ágúsdóttir bendir á algenga hugsanavillu: „Þegar „ég á kærasta“ er talið gilara svar en „nei takk“ því strákar virða aðra stráka meira en rétt minn til að segja nei #6dagsleikinn.“
Sæunn Jódís segir frá því þegar kynferðisofbeldi gegn dreng var ekki tekið alvarlega: „Þegar stelpa nauðgaði bróður vinkonu minnar þegar hann var dauðadrukkinn og öllum fannst það fyndið. #6dagsleikinn“
„Skrifarðu fréttirnar sem þú gerir alveg sjálf?“
María Lilja Þrastardóttir er ein þeirra sem stendur að baki herferðinni og hefur tekið nokkur dæmi af hversdagslegu misrétti sem hún hefur orðið fyrir. Eins og þetta: „Þegar Séð og heyrt reyndi að gera lítið úr brjóstabyltingunni. #6dagsleikinn." Tímaritið birti frétt um „flottustu femínistabrjóstin,“ í kjölfar #freethenipple-herferðarinnar.
Þórhildur Þorkelsdóttir, fréttakona á Stöð 2 og Brestum, segir: „Skrifarðu fréttirnar sem þú gerir alveg sjálf?“ hef ég margoft verið spurð að, bæði af konum og körlum. #6dagsleikinn“
Kolbrún Björnsdóttir, fyrrverandi dagskrárgerðarkona, fór nýlega að stunda hjólreiðar af miklum krafti og vinnur nú í hjólabúð: „Þegar fullorðinn maður bað mig, eftir að hann tjáði mér að konur ættu ekki að vinna í hjólabúðum, að hjóla ekki fram úr sér. Þá yrði hann að hætta að hjóla. #6dagsleikinn“
Eva Bjarnadóttir var nýverið ráðin aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar, formanns Samfylkingarinnar. Af því tilefni var stutt umfjöllun um hana á baksíðu Fréttatímans á föstudag: „Er á baksíðu Fréttatímans í dag því ég var að fá nýtt starf. Fyrirsögnin hefði aldrei verið "Ókvæntur en trúlofaður". #6dagsleikinn“
Athugasemdir