Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lýsir yfir vilja til að auka einkavæðingu í velferðarþjónustu í Reykjavík í föstudagsviðtali Fréttablaðsins. Áslaug segist vilja bjóða út verkefni og auka val sjúklinga.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tekur ekki vel í þessar hugmyndir Áslaugar og líkir Áslaugu við Ásdísi Höllu Bragadóttur, eiganda einkarekna heimahjúkrunarfyrirtækisins Sinnum ehf. og lækningafyrirtækisins Klíníkurinnar, í stöðufærslu á Facebook. Stundin hefur undanfarið fjallað um viðskipti Ásdísar Höllu og félags hennar Sinnum.
„Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, boðar einkavæðingu velferðarþjónustu borgarinnar á forsíðu Fréttablaðsins. Hún vill bjóða hana út og veita fyrirtækjum í velferðarþjónustu frelsi til að „búa til aukaþjónustu“ sem einstaklingar greiða þá beint fyrir. Ásdís Halla Bragadóttir, forstjóri Sinnum hf, boðaði svipaða sýn á árfundi Samtaka atvinnulífsins fyrir um tveimur árum og horfði til Albaníu þar sem hægt væri að kaupa brons, silfur eða gullpakka þegar kona kæmi inn á spítala til fæðingar (ég er ekki að skálda þetta - hennar dæmi).
Albanía er eitt versta heilbrigðiskerfi Evrópu þar sem einungis ríkasta brot samfélagsins hefur ráð á því sem við teljum eðlilega (fyrsta flokks) þjónustu,“ skrifar Dagur. Hér má sjá erindi Ásdísar Höllu þegar hún lýsti heilbrigðisrekstri í Albaníu.
Vill auka val
Í viðtali við Fréttablaðið er Áslaug spurð hvort hún vilji sjá einkavæðingu í velferðarþjónustu. Svar hennar er já. „Já. Bjóða út verkefnið. Þannig munum við fá fjölbreytni og þau fyrirtæki sem þá myndu líta dagsins ljós eru betur til þess fallin að fara í þá nýsköpun sem við þurfum í þessum geira. Við þurfum breytta nálgun. Nú er mikil óánægja með þjónustuna og hefur verið lengi,“ segir Áslaug.
„Ofan á það geta þessi fyrirtæki búið til aukaþjónustu og náð inn tekjum.“
Borgarfulltrúinn lýsir yfir vilja til að búa til þrepskipt velferðarkerfi þar sem grunnþjónusta sé veit af Reykjavíkurborg en einkaaðilar sjái um „aukaþjónustu“. „Ofan á það geta þessi fyrirtæki búið til aukaþjónustu og náð inn tekjum. Geta farið að bjóða fjölskyldum alls konar þjónustu sem þörf er á. Við eigum að búa til kerfi þar sem um almennara velferðarkerfi er að ræða. Fólk þarf ekki að bíða þar til það kemst í mikil vandræði heldur bara veit að það er alls konar fólk með fagþekkingu sem veit hvernig það á að mæta alls konar vandamálum, hjá börnum og fjölskyldum,“ segir Áslaug.
Áslaug segir þó að einkaaðilarnir ættu ekki að fá að velja sér sjúklinga. „Nei, við þurfum að gera það á þann hátt að það verði ekki. Eins og er verið að gera núna í heilbrigðisþjónustunni. Það eru heilsugæslustöðvar sem hafa tekið að sér reksturinn, fá til þess greitt úr ríkissjóði. Þar má fólk ekkert velja sér kúnna. Kúnnarnir hafa rétt á að sækja sér þjónustuna þangað vilji þeir það. Þannig er vel hægt að vinna í velferðarkerfinu. Um þetta held ég að geti náðst breið samstaða. Samfylkingin var á sínum tíma með þetta á stefnuskrá,“ segir Áslaug.
Vill tryggja jöfn tækifæri
Dagur sparar ekki stóru orðin á Facebook og segir ástæðuna sem hann sé í stjórnmálum að koma í veg fyrir álíka hugmyndir og Áslaug talar fyrir. „Velferðarsamfélög Norðurlanda byggja á sterkri samhjálp þar sem veitt er þjónusta eftir þörf, en greitt er eftir getu. Þetta á að tryggja jöfn tækifæri og jafnræði þar sem efni ráði ekki örlögum fólks ef það veikist eða þarf aukinn stuðning tímabundið eða til lengdar. Innan þessara ramma hefur stundum verið beitt útboðum og einkarekstri, en ábyrgðin er hins opinbera og umtalsverður rekstur á hendi ríkis og sveitarfélaga enda hafa margir bent á að fyrirtæki með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi sogi takmarkaða fjármuni út úr velferðar- og heilbrigðiskerfinu án þess að auka þar hagkvæmni þegar til lengri tíma er litið.
„Viljum við norrænt velferðarsamfélag eða viljum við það ekki?“
Útboð og einkarekstur í völdum tilvikum er eitt og sér heilmikil umræða. Sjálfstæðisflokkurinn í borginni er hins vegar ekki bara að velta fyrir sér hagkvæmni útboða í völdum tilvikum, eins og margir gætu haldið, heldur grundvallarbreytingu á samfélagsgerðinni þar sem efni ráði því hverjir fái fyrsta flokks heilbrigðis- og velferðarþjónustu en hinir fái einhvern nýjan grunn, sem á að spara miklar fjárhæðir og okkur hefur ekki verið kynntur. Það verður að gera þá kröfu til flokksins að hann kynni þessar hugmyndir sínar margfalt margfalt betur og gefi heiðarlega lýsingu á því hverjar verði afleiðingarnar fyrir einstaklinga og samfélag. Kannski botnar þetta í spurningunni: viljum við norrænt velferðarsamfélag eða viljum við það ekki? Það er raunar ekki spurning í mínum huga, heldur ein ástæðan fyrir því að ég er að í stjórnmálum,“ skrifar Dagur.
Athugasemdir