„Leyniskýrslurnar“ sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra vísaði til í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarmanna eru fréttabréf sem fjölda kröfuhafa berst reglulega frá Einari Karli Haraldssyni almannatengli og ráðgjafa slitastjórnar Glitnis. Fullyrðingin um að Framsóknarflokkurinn gæfi ekki eftir íslenska hagsmuni er úr slíku bréfi, að því er fram kemur í grein eftir viðskiptaritstjóra DV sem birtist á vef blaðsins í dag.
Í skrifum viðskiptaritstjórans kemur hins vegar ekki fram að þau orð sem Sigmundur las upp eru tilvitnun fréttabréfsritara í pistil eftir Ásmund Einar Daðason, þingmann og aðstoðarmann forsætisráðherra sem birtist fyrr á þessu ári. Einar Karl benti á þetta í nýjasta fréttabréfi sínu til slitastjórnar Glitnis, líkt og Stöð 2 greindi frá í kvöld.
Í viðtali Björns Inga Hrafnssonar við Sigmund Davíð í þættinum Eyjunni, sem tekið var í dag en sýnt í kvöld, var Sigmundur spurður sérstaklega um umrædda tilvitnun. Tók forsætisráðherra þá fram af fyrra bragði að þarna væri ekki verið að vitna í mat framsóknarmanna sjálfra heldur væri þetta „mat þessara aðila sem eru fengnir til að kortleggja stjórnmálin og greina þau“. Þetta sagði Sigmundur áður en Stöð 2 sagði fréttina um að hér væri um að ræða tilvitnun í Ásmund Einar.
Í grein hans sem birtist í Morgunblaðinu þann 22. janúar segir hann orðrétt: „Erlendir kröfuhafar þrotabúanna eru hægt en örugglega að átta sig á því að ríkisstjórninni er full alvara að standa vörð um hagsmuni almennings á Íslandi.“
Ekki niðurstaða skýrslunnar
„Við vitum að fulltrúar kröfuhafanna hafa tekið saman persónulegar upplýsingar um stjórnmálamenn, blaðamenn og aðra sem hafa tjáð sig um þessi mál eða teljast líklegir til að geta haft áhrif á gang mála,“ sagði Sigmundur í ræðu sinni og bætti við að „í sumum tilvikum hafa verið gerðar sálgreiningar á fólki til að átta sig á því hvernig best sé að eiga við það.“
Sagði hann niðurstöðu einnar leyniskýrslu kröfuhafanna hafa verið rakta „í punktaformi á forsíðu“ þar sem staðið hefði: “The Progressive Party stands firms on Icelandic interests. Framsóknarflokkurinn gefur ekki eftir íslenska hagsmuni.“
Að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2 var þetta hins vegar ekki niðurstaða skýrslunnar, heldur ensk þýðing á tilvitnun í grein eftir Ásmund Einar. Þannig virðist formaður Framsóknarflokksins hafa gefið flokkssystkinum sínum villandi upplýsingar um helgina.
Athugasemdir