Árið 2014 risu harðar deilur milli Ingimundar Einarssonar, dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur, og tveggja kvenkyns dómara við réttinn sem lent höfðu í slysi og þurft frí frá vinnu. Í kjölfarið tók dómstólaráð vinnubrögð Ingimundar til skoðunar, en formaður ráðsins á þeim tíma var undirmaður dómstjórans í Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómstólaráð samþykkti bókun þar sem meðal annars kom fram að ráðið teldi ekki þörf á að leysa úr því hvort dómstjórinn hefði gerst sekur um brot í starfi, enda gæti slíkt brot „ekki leitt til áminningar eins og hér stendur á“.
Þetta er á meðal þess sem fram kemur í ítarlegri umfjöllun Stundarinnar um stjórnsýslu og innra eftirlit dómstólanna í nýju tölublaði sem kom út í dag.
Eftir að kvendómararnir tveir við Héraðsdóm Reykjavíkur lögðu fram áverkavottorð sérfræðilækna um að þær þyrftu frí frá vinnu krafðist Ingimundur Einarsson dómstjóri þess að þær undirgengust einnig læknisskoðun hjá trúnaðarlækni. Dómararnir neituðu að hlíta fyrirmælunum sem þær töldu ólögmæt og ganga gegn stjórnarskrárvörðu sjálfstæði, starfsöryggi og trúverðugleika þeirra sem dómara.
Með þessu taldi hins vegar Ingimundur að dómararnir hefðu óhlýðnast og brotið gegn agavaldi sínu. Í stað þess að fara með málið fyrir nefnd um dómarastörf leitaði Ingimundur til kollega sinna í dómstólaráði sem ákvað að taka málið til skoðunar á grundvelli heimildar í 4. mgr. 16. gr. laga um dómstóla. Sú grein fjallar um heimildir dómstólaráðs til að hafa afskipti af dómstjóra ef hann brýtur af sér í starfi. Eftir því sem Stundin kemst næst er þetta í fyrsta skiptið sem greinin er virkjuð. „Innanríkisráðuneytinu er ekki kunnugt um hvort dómstólaráð hafi áður fjallað um störf dómstjóra,“ segir í svari innanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar um málið.
Formaðurinn var undirmaður dómstjóra
Formaður dómstólaráðs á þessum tíma var Símon Sigvaldason, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur. Hann er undirmaður Ingimundar við Héraðsdóm og kom það nú í hans hlut að fjalla um mál er varðaði meint brot yfirmanns síns og valdheimildir hans. Meðan málið var til meðferðar tók Þorgeir Ingi Njálsson, dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness, aftur sæti í dómstólaráði eftir að hafa gegnt tímabundið stöðu umboðsmanns Alþingis. Á meðan hafði Ingimundur sjálfur setið í dómstólaráði sem varamaður Þorgeirs Inga.
Þorgeir hafði verið með í ráðum þegar Ingimundur ákvað að fela sérvöldum trúnaðarlækni að líta á konurnar en taldi sig þó ekki vanhæfan til að fjalla um málið. Aðrir ráðsmenn, þar af einn undirmaður Þorgeirs hjá Héraðsdómi Reykjaness, voru sammála um hæfi Símonar og Þorgeirs. Tveir af fimm dómstólaráðsmönnum voru sjálfir dómstjórar og tóku nú þátt í umfjöllun um mál sem varðaði valdheimildir dómstjóra gagnvart undirmönnum sínum.
Athugasemdir