Hilmir Gauti Bjarnason, drengurinn sem lenti í slysinu í Reykdalsstílfu, er kominn í leyfi frá Landspítalanum. Bataferlið hefur gengið vonum framar, svo vel að hann Hilmir hefur verið kallaður „kraftaverkastrákurinn“ á spítalanum. Hann hefur þó ekki verið útskrifaður og verður áfram til eftirlits og rannsókna á spítalanum. Ekkert bendir til þess að hann muni bera skaða af slysinu samkvæmt upplýsingum frá spítalanum.
Hilmir og fjölskylda hans munu fá áfallahjálp til þess að vinna úr áfallinu sem dundi á þann 15. apríl þegar Hilmir festist í fossi við Reykdalsstíflu ásamt bróður sínum. Systir þeirra var á vettvangi og gerði móður þeirra viðvart. Hún kom strax á staðinn og tók þátt í björgunartilraunum.
Mjög erfiðar aðstæður voru á vettvangi þar sem hver sekúnda skipti máli. Endurlífga þurfti báða drengina, sá eldri komst til meðvitundar á vettvangi en halda þurfti Hilmi sofandi í tvo sólarhringa. Læknar beittu kælimeðferð, þar sem líkamshita er haldið í 32-34 gráðum, til að draga úr líkum á heilaskaða. Það var síðan á föstudag sem Hilmir Gauti komst aftur til meðvitundar. Nú seinnipart dags fékk hann síðan að fara heim í Hafnarfjörð til ömmu sinnar þar sem fjölskyldan dvelur, en hún er búsett á Tálknafirði.
Samkvæmt upplýsignum frá spítalanum varð margt til þess að allt gekk upp við björgun hans. Sérsveitin var á æfingu rétt hjá vettvangi slyssins og slökkviliðið var á námskeiði þar nærri. Allt hafi gengið upp og það skýri hvers vegna þetta fór svona vel.
Fjölskyldan verður í viðtali í Kastljósi í kvöld. Móðir hans segir það hafa verið ólýsanlega tilfinningu þegar Hilmir vaknaði á föstudag.
Athugasemdir