Svanur Guðmundsson, kosningastjóri Framsóknar og flugvallarvina í síðustu borgarstjórnarkosningum, kemur Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra til varnar á Facebook-síðu sinni. Tilefnið er fréttaflutningur helgarinnar af úrskurði Persónuverndar þess efnis að Sigríður hafi, sem lögreglustjóri á Suðurnesjum, brotið lög þegar hún sendi Gísla Frey Valdórssyni, fyrrverandi aðstoðarmanni innanríkisráðherra, gögn um málefni hælisleitendanna Tony Omos og Evelyn Glory Joseph.
„Það er ótrúlegt hvernig þetta mál hefur verið notað til þess að taka gott fólk niður í nafni teygðra lagatúlkana,“ skrifar Svanur og bætir við: „Gleymum því ekki að málið snýst um þrælahaldara og melludólgs [sic].“
Hvorki ákærð né dæmd
Hvorki Tony Omos né Evelyn Glory Joseph hafa verið ákærð, hvað þá sakfelld, fyrir þrælahald eða mansal. Evelyn fékk hæli á Íslandi í fyrra en Tony var vísað úr landi, meðal annars á grundvelli þess að hann hefði ekki sætt áframhaldandi rannsókn lögreglunnar á Suðurnesjum í mansalsmáli. Fjöldi nígerískra karlmanna hafði lengi vel réttarstöðu grunaðs manns í málinu, meðal annars Tony Omos.
Athugasemdir