„Vitiði afhverju Dagur var svona ánægður með brjóstadaginn? Hann fékk loksins að sjá brjóstin á Hildi Lilliendahl,“ skrifaði Svanur Guðmundsson, kosningastjóri Framsóknar og flugvallarvina í síðustu borgarstjórnarkosningum, á Facebook-síðu sína í dag. Hann hefur nú falið ummælin, en skjáskot af þeim hefur vakið talsverða athygli á Twitter.
Svanur er eiginmaður Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, en hún lét hafa eftir sér í gær að herferðin #FreetheNipple væri „hámark plebbismans“.
Svanur hefur lagt sitthvað til málanna. Meðal annars deildi hann frétt um menntaskólastúlkur sem gengu berbrjósta niður Laugaveginn og skrifaði: „Ef þetta fer í erlenda fjölmiðla þá þarf að endurskoða spá um fjölda ferðamanna og áfallahjálp fyrir feður þessa lands.“ Þá spurði hann á Facebook í gærkvöldi: „Er einhver hér, einhver karlkyns, sem skilur betur konur eftir daginn í dag?“
Kosningastjórinn er framkvæmdastjóri fyrirtækisins Smáíbúða ehf. DV tók viðtal við hann í fyrra þar sem fram kom að hann vonaðist til að Guðfinna myndi beita sér fyrir hagsmunum fyrirtækis síns sem hafði þá lýst yfir vilja til að reisa gámahús í höfuðborginni. Guðfinna og Svanur brugðust við með því að segja að rangt væri haft eftir þeim í frétt DV sem birti í kjölfarið hljóðupptökur af símtölunum sem leiddu í ljós að svo var ekki.
Athugasemdir