Ímyndaðu þér framtíð þar sem allt sem þú gerir á internetinu endar í miðlægum gagnagrunni. Heim þar sem ríkið gefur þér einkunn fyrir hvert einasta skref sem þú tekur í netheimum. Vinirnir sem þú eignast, fötin sem þú kaupir, samræðurnar sem þú átt, tónlistin sem þú hlustar á, allt er þetta vegið og metið samkvæmt fyrirfram gefinni reikniformúlu. Þeir sem skora hátt í þessum veruleika eru verðlaunaðir. Þeir eiga þess kost að ferðast hvert sem hugurinn girnist auk þess sem þeir fá forgang hjá stofnunum ríkisins.
Hinir, sem sögðu ef til vill eitthvað rangt eða eyddu peningunum sínum í áfengi og tölvuleiki, enda aftast í röðinni. Ferðafrelsi þeirra er takmarkað og aðgengi að afþreyingu er verulega skert. Þetta þarf ekki að vera fjarlægur vísindaskáldskapur. Einhvern veginn svona er hugmyndin um félagshæfismatskerfið [e. social credit system] sem kínversk yfirvöld vinna nú að því að koma á fót á landsvísu fyrir lok árs 2020.
Athugasemdir