Eiríkur Jónsson blaðamaður fullyrðir á vef sínum að Síminn hafi keypt ljósvakahluta fjölmiðlarisans 365; þ.e. Stöð 2, Bylgjuna og aðrar útvarpsstöðvar fyrirtækisins.
Stundin hafði samband við Kristínu Þorsteinsdóttur, aðalritstjóra 365 miðla, sem játaði því hvorki né neitaði að fréttin ætti sér stoð í raunveruleikanum. Vildi hún ekki veita blaðamanni neinar upplýsingar um málið.
Samkvæmt heimildum Stundarinnar er rangt að Síminn sé búinn að kaupa ljósvakahluta 365. Slík kaup eru ekki í formlegu ferli en hafa komið til álita hjá fyrirtækjunum.
„Gengið verður formlega frá þessu innan skamms en Fréttablaðið og visir.is fylgja ekki með í kaupunum. Þó herma aðrar heimildir að eigendur 365, Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir, séu búin að finna kaupendur að þeim hluta líka – en það er ekki Síminn,“ segir á vef Eiríks.
Uppfært kl. 19:35:
Síminn hefur sent frá sér yfirlýsingu um að fyrirtækið hafi ekki keypt ljósvakamiðla 365 og viðræður standi ekki yfir. „Fyrirtækið tjáir sig því ekki um getgátur og orðróm. Vegna fullyrðinga á opinberum vettvangi í dag viljum við hins vegar taka fram að Síminn hefur ekki keypt ljósvakamiðla 365. Viðræður standa ekki yfir,“ segir í tilkynningunni.
Athugasemdir