Neyðarástandi var lýst yfir í París í kvöld eftir árás hryðjuverkamanna með vélbyssur og sprengiefni á fólk á kaffihúsum, tónleikum og við þjóðarleikvanginn í 10. og 11. hverfi borgarinnar. Fjöldi látinna er ekki ljós, en samkvæmt lögreglu eru mun meira en hundrað fallnir. Talið er að árásir hafi verið gerðar á sjö stöðum. Fram hefur komið að vitni segir hryðjuverkamennina hafa talað um Sýrland og hrópað „Guð er mikill“ á arabísku á meðan árásunum stóð í Bataclan-tónleikahúsinu. Þar er talið að hundrað manns hafi látist.
Áhrif á íslenska umræðu
Árásin hefur áhrif á umræðuna hér á landi. Í kvöld hefur fjölda ummæla verið eytt úr kommentakerfum fréttamiðla. Vísir.is hefur í kjölfarið lokað á ummæli við frétt sína af málinu. Þá er kvartað í ummælum á DV.is og Eyjunni.is yfir því að ummælum hafi verið eytt.
Í einum ummælunum segir viðkomandi að þeir sem haldi uppi vörnum fyrir múslima eigi skilið að verða fyrir árásum eins og þeim sem eiga sér stað í París.
Dæmi um ummælin eru: „Hvenær á að fara að útrýma þessum íslamviðbjóði?“
Þá kvartar Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna, yfir Schengen-samstarfinu sem leyfir vegabréfalaus ferðalög innan Evrópska efnahagssvæðisins í færslu á Facebook með hlekk á frétt um árásirnar: „Lengi lifi Schengen samstarfið!!! Ömurlegar staðreyndir niðurfellinga landamæraeftirlits Evrópuríkja, eftirgjafar á öryggi almennra borgara, niðurskurðar til löggæslumála, skertra forvirkra rannsóknarheimilda lögreglu og almennrar linkindar og umburðarlyndis Evrópu allrar gagnvart innrás ósamrýmanlegra sjónarmiða vestrænna gilda lýð- og frjálsræðis!!“
Nánari fréttir af árásunum má lesa hér á vef Ríkisútvarpsins.
Athugasemdir