Indriði H. Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, segir Bjarna Benediktsson fjármálaráðherra setja fram „staðleysur einar“ í Facebook-færslu þar sem ráðherrann bregst við umfjöllun um aukna skattbyrði lágtekju- og millitekjufólks á tímabilinu 2012 til 2015.
„Ráðherra heldur því fyrst fram að tekjuskattur hafi lækkað en viðurkennir í næsta orði að skatthlutfall (skattbyrði) hafi hækkað hjá flestum en fer ranglega með að þess hafi ekki verið getið í grein minni að það megi rekja til breytinga á tekjum,“ skrifar Indriði í pistli sem hann birti á vef sínum í kvöld.
Eins og fjallað er um í nýjasta tölublaði Stundarinnar hefur skattbyrði flestra tekjuhópa aukist á því kjörtímabili sem nú er að ljúka. Í grein eftir Indriða H. Þorláksson sem birtist í blaðinu er sýnt hvernig skattbyrði hefur aukist hjá 80 prósentum hjóna og sambúðarfólks en aðeins minnkað hjá tekjuhæstu 20 prósentunum.
Bjarni Benediktsson brást við með Facebook-færslu í gær þar sem hann sagði að meginástæðan fyrir aukinni skattbyrði lágtekju- og millitekjufólks væri sú að laun hefðu hækkað. Hins vegar vék hann ekki að þeirri staðreynd að hjá tekjuhæstu 20 prósentunum hefur skattbyrðin minnkað jafnvel þótt tekjur þess hóps hafi hækkað mest.
Indriði svarar málflutningi Bjarna í nýjum pistli á vefsíðu sinni.
„Fjármálaráðherra virðist hafa komist að því við lestur greinar minnar um samanburð á skattlagninu tekna á árunum 1993 til 2015 að skattbyrði hefði vaxið í tíð núverandi ríkisstjórnar. Athugasemdir ráðherra benda þó til þess að hann hafi ekki kynnt sér greinina nægilega vel. Með því hefði hann komist hjá að setja fram í þeim staðleysur einar,“ skrifar Indriði og bætir við:
„Ráðherra heldur því fyrst fram að tekjuskattur hafi lækkað en viðurkennir í næsta orði að skatthlutfall (skattbyrði) hafi hækkað hjá flestum en fer ranglega með að þess hafi ekki verið getið í grein minni að það megi rekja til breytinga á tekjum. Því næst kemur sú staðhæfing að skattar hafi fyrir flesta lækkað um 3,3 prósentustig. Slík hefði þýtt að skattar hjá samsköttuðum hefðu lækkað um ca 22 milljarða króna.“
„Hjá flestum hafa álagðir beinir skattar hækkað hlutfallslega meira en tekjur og það hefur leitt til hækkunar á skattbyrði“
Þá bendir Indriði á að frá 2012 til 2015 hafi álagðir beinir skattar hækkað hjá flestum, meðal annars vegna tekjuþróunar.
„Afgerandi staðreynd er að hjá flestum (ca 80% samskattaðra) hafa þeir hækkað hlutfallslega meira en tekjur og það hefur leitt til hækkunar á skattbyrði sem nemur um 1,2 prósentum af tekjum að jafnaði. Hjá tekjuhæstu 20% samskattaðra hafa beinir skattar hins vegar hækkað hlutfallslega minna en tekjur þeirra og hefur það leitt til lækkunar á skattbyrði sem nemur um 8,5 prósentum af tekjum,“ skrifar Indriði og bætir við að þetta sé að hluta til vegna brottfalls auðlegðarskatts og aukinna fjármagnstekna.
„Hækkun skattbyrði hjá 80% samskattaðra svarar til þess að þeir greiði 7 milljörðum króna meira í skatt en verið hefði að óbreyttri skattbyrði en ekki 22 milljörðum króna minna eins og staðhæfing ráðherra felur í sér. Tekjuhæstu 20% samskattaðra greiða um 8 milljörðum króna minna í skatt en verið hefði að óbreyttri skattbyrði.“
Athugasemdir