Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, nafngreindi starfsmann Summu ráðgjafar, Hrafnkel Kárason, sem annaðist útreikninga er lagðir voru til grundvallar LÍN-frumvarpinu, í þingræðu í morgun. Þá sakaði Illugi þingkonu Pírata, Ástu Guðrúnu Helgadóttur, ranglega um að hafa brigslað „þessum nafngreinda manni“ um að hafa blekkt Alþingi.
Vísaði Illugi til ræðu sem Ásta Guðrún hélt í gær undir liðnum störf þingsins, en í ræðunni beindi hún spjótum sínum að mennta- og menningarmálaráðherra og forsendunum sem liggja til grundvallar LÍN-frumvarpinu. Ásta minntist hvorki á Summu ráðgjöf né umræddan starfsmann þess, Hrafnkel Kárason.
Eftir því sem Stundin kemst næst er Illugi Gunnarsson fyrsti og eini þingmaðurinn sem nafngreint hefur Hrafnkel Kárason í þingræðu. Sagði Illugi að maðurinn væri með doktorspróf frá MIT og væri góður í stærðfræði.
Ásta Guðrún hefur aldrei nafngreint manninn, hvorki í þingræðum né í pistlum sem hún hefur skrifað um LÍN-frumvarp Illuga. Gagnrýni hennar og annarra í minnihluta allsherjar- og menntamálanefndar hefur hins vegar fyrst og fremst beinst að mennta- og menningarmálaráðuneytinu.
Orðaskiptin í heild:
Hér má sjá ræðuna sem Ásta Guðrún hélt í gær:
Virðulegi forseti. Það er ekki nema von að hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson telji það glapræði að LÍN-málið komist ekki í gegn, hv. þingmaður hefur greinilega ekki kynnt sér það nógu vel. Þetta mál sem var í hv. allsherjar- og menntamálanefnd var þeim vanköntum háð að allir útreikningar sem voru í boði voru bundnir við einhverja galdra. Þarna var verið að blekkja þingheim með því að segja að 85% stúdenta kæmu betur út. Það var fengið út með því að gera ráð fyrir því að einstæð móðir með tvö börn á námslánum tæki sér einungis úr námslánakerfinu sem samsvarar 115 þús. kr. á mánuði og mundi þar af leiðandi minnka heildartekjur sínar um 190 þús. kr. á mánuði. Það voru forsendurnar sem gefnar voru í frumvarpinu. Að sama skapi var ekkert litið til þess að sumir nemendur þurfa að taka skólagjaldalán, eins og listnemar þurfa að gera. Ég er með dæmi um listnema sem fer í LHÍ þar sem önnin kostar 490 þús. kr. og síðan í masters-nám í tónsmíðum þar sem önnin kostar 796 þús. kr. Ef hann tæki fullt framfærslulán, sem er mjög eðlilegt, það er það sem nemendur gera núna, og skólagjaldalán væri afborgun hans á mánuði um 30 þús. kr. Það mundi tvöfaldast miðað við núverandi kerfi. Er það frábært? Þrátt fyrir að hann fái 65 þús. kr.? Þetta frumvarp er mjög góð ástæða fyrir því að við stóðum upp og sögðum: Nei, þetta er ekki nógu gott. Þarna er verið að slíta ákveðinn jöfnuð, sjá til þess að þeir ríku fái styrk og komi skuldlausir úr námi, sjá til þess að stúdentar í foreldrahúsum geti komið skuldlausir úr námi á meðan þeir sem hafa börn á framfæri borga brúsann. Finnst hv. þingmanni það sanngjarnt? Nei, mér finnst það heldur ekki. Þar af leiðandi stóð ég gegn þessu frumvarpi og er mjög sátt við það.
Ræðan sem Illugi Gunnarsson hélt í morgun til að bregðast við ræðu Ástu Guðrúnar var svohljóðandi:
Virðulegi forseti. Ég vil gera athugasemd við stjórn fundarins. Ég hefði talið æskilegt að hér hefði verið byrjað á liðnum um störf þingsins. Ástæðan fyrir því að ég hefði viljað það er að undir þeim lið féllu í gær eftirfarandi ummæli hjá hv. þm. Ástu Guðrúnu Helgadóttur, með leyfi forseta: „Þarna var verið að blekkja þingheim með því að segja að 85% stúdenta kæmu betur út.“ Í almennri pólitískri umræðu eru gjarnan stór orð látin falla í garð þeirra sem eru pólitískir andstæðingar. En hér liggur það undir að nafngreindur einstaklingur, dr. Hrafnkell Kárason, vann greininguna sem lögð var til grundvallar af hálfu ráðuneytisins. Ég kveinka mér ekki persónulega undan því að sitja undir slíkum brigslmælum en ég vil ekki að það standi í bókum þingsins að þessum nafngreinda manni, doktor frá MIT, sem vann þessa greiningu, grundvallaða á opinberum gögnum, sé brigslað um að hafa með störfum sínum verið að blekkja þingið. Ég vildi gera grein fyrir þessu og hefði gjarnan viljað ræða það betur undir liðnum um störf þingsins. Svo ég vitni aftur í hv. þingmann sagði hún að þessir útreikningar væru allir „bundnir við einhverja galdra“. Það er ekki þannig, virðulegi forseti. Þetta er það sem í almennu tali er kallað stærðfræði og Hrafnkell Kárason, doktor frá MIT, er einmitt góður í því fagi. Sú niðurstaða að 85% stúdenta kæmu betur út var einungis byggð á opinberum gögnum, síðan bætist við umræða um samspil við önnur kerfi sem gera það að verkum að m.a.s. hærra hlutfall kæmi betur út. En ég vildi ekki að í bókum þingsins stæði sú ásökun á þennan nafngreinda mann að hann hefði vísvitandi farið fram með blekkingum gegn þingi og þjóð.
Ásta Guðrún svaraði Illuga skömmu seinna:
Virðulegi forseti. Ég má til með að koma hingað og leiðrétta þann hvimleiða misskilning sem kom fram í ræðustól hjá hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra varðandi það að ég hefði nafngreint einstaklinga sem hefðu gert ákveðnar rannsóknir í þágu mennta- og menningarmálaráðuneytisins varðandi LÍN-frumvarpið. Það er ekki rétt, þetta er nokkuð sem ég hef ekki gert. Ég hef ekki nafngreint fólk. Ég hef hins vegar dregið í efa þá útreikninga sem mennta- og menningarmálaráðuneytið lýsti yfir sjálft og var m.a.s. í fylgiskjali með frumvarpinu. Þegar þessi góði maður kom á fund nefndarinnar kom í ljós á hvaða forsendum þessir útreikningar voru byggðir. Það er nákvæmlega það sem gagnrýni okkar í minni hluta nefndarinnar byggist á, að þarna séu blekkingar, þarna sé verið að slá ryki í augu kjósenda, þarna sé verið að leika sér með tölur og forsendur. Það kom skýrt fram að þetta væri gert að beiðni hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra, að leika sér með tölur, bara þannig að því sé haldið til haga. Ég hef ekki sakað neinn um neitt, ég hef ekki nafngreint neinn nema hugsanlega mennta- og menningarmálaráðherra sem er sá eini sem ber ábyrgð á þessum málaflokki. Og hann brást.
Þá lagði Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar sem situr í allsherjar- og menntamálanefnd ásamt Ástu Guðrúnu, orð í belg:
Virðulegi forseti. Í þessum ágreiningi sem hér er kominn upp vil ég koma hér sem vitni í málinu. Ég hef eins og hv. þm. Ásta Guðrún Helgadóttir gagnrýnt mjög og lýst andstöðu við námslánafrumvarpið og m.a. haldið því fram eins og hún að ráðuneytið hafi ekki sagt rétt frá þegar það fullyrti að t.d. um 90% stúdenta mundu greiða minna í afborganir af námslánum í þessu nýja kerfi. Það tók okkur í minni hlutanum smátíma að sjá í gegnum þennan blekkingarleik sem við höfum kallað svo. Þarna var í öllu falli aðeins hálf saga sögð. Það var einmitt á fundi með umræddum reiknimeistara sem er með doktorspróf frá MIT eins og kom fram í máli hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra sem þetta laukst upp fyrir okkur, vegna þess að sá fundur var mjög upplýsandi þar sem viðkomandi svaraði mjög skilmerkilega öllum okkar spurningum og sýndi einmitt hæfni sína í hvívetna í þessu efni. Þannig að gagnrýni hv. þm. Ástu Guðrúnar Helgadóttur og gagnrýni mín á blekkingarleikinn er engan veginn gagnrýni á umræddan aðila. Það er algjör misskilningur.
Bæði Illugi og Ásta Guðrún hafa tjáð sig um málið á Facebook:
Athugasemdir