Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hvetur ungmenni til að spara og búa lengur í foreldrahúsum. Þetta kemur fram í bloggpistli sem hún birti á Eyjunni í gær.
Þar tekur hún dæmi af gömlum vinum „sem settu alltaf 10 til 20% af launum sínum um hver mánaðarmót inn á bankabók áður en nokkuð annað var borgað [...] fóru hægar í gegnum háskólanámið til að þurfa ekki að taka námslán, bjuggu lengur heima til að geta sparað fyrir húsnæði eða tóku strætó í vinnuna til að geta borgað hraðar niður íbúðalánið“.
Hún stillir þessum vinum upp andspænis sjálfri sér, en sjálf segist hún hafa safnað skuldum: „Ef það var eitthvað sem mig langaði í, þá rölti ég í næstu lánastofnun og viðkunnanlegi þjónustufulltrúinn bjargaði því fyrir mig. Yfirdráttarlán brúaði bilið þar til LÍN borgaði út námslánin, bankalán dekkaði það sem upp á vantaði, 90% verðtryggt íbúðalán hjálpaði til við fyrstu kaupin og 100% gengistryggður bílasamningur reddaði bílnum. Í fæstum tilvikum átti ég eitthvað sparifé upp í fjárfestingar mínar, hvort sem um var að ræða menntunina, bílinn eða íbúðakaupin.“
Eygló hvetur ungmenni til að taka sér vini sína til fyrirmyndar. Hún segir valið standa á milli þess og að hverfa aftur til ársins 2007.
„Einhverjir af mínum skynsömu og ráðdeildarsömu vinum höfðu reiknað þetta út fyrir löngu, keypt sér strætókort, þakkað fyrir að geta búið heima aðeins lengur og fengið sér Frelsi fyrir gamla Nokia símann. Við gætum vel lært af þeim, nema við viljum bara hverfa aftur til ársins 2007. Við höfum valið,“ skrifar ráðherrann.
Hér má lesa pistil hennar í heild. Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur einnig skrifað pistil til höfuðs gámafordómum, sjá hér.
Athugasemdir