Sigmar Guðmundsson mun sjá um nýjan morgunþátt á Rás 2 ásamt Guðrúnu Sóleyju Gestsdóttur. Sigmar var ritstjóri Kastljóssins um árabil en lét nýverið af störfum fyrir Kastljósið. Þóra Arnórsdóttir var ráðin sem ritstjóri og Baldvin Þór Bergsson fenginn inn í stað Sigmars.
Tilkynnt var um fleiri breytingar á fjölmiðlamarkaði í dag. Björn Þorláksson var fenginn til liðs við Hringbraut þar sem hann mun skrifa pistla og fréttaskýringar á vefinn fyrst um sinn. Björn er þaulvanur fréttamaður sem vann um árabil á RÚV en hefur síðustu ár stýrt Akureyri vikublað. Útáfu blaðsins var hætt í kjölfar þess að Björn Ingi Hrafnsson keypti útgáfufélagið Fótspor sem gaf það út.
Greint var frá ráðningunni á vef Hringbrautar í dag. Þar var haft eftir Birni að það hafi verið áskorun að halda úti gagnrýnum staðarmiðli í fjögur ár, en nú sé tímabært að söðla um. „Ég mun hafa almannahagsmuni að leiðarljósi í störfum mínum hjá Hringbraut eins og blaðamönnum ber að gera. Nú eru liðin sex ár síðan ég vann síðast við ljósvakann og ég hlakka til að snúa aftur á nýjan vettvang.“
Athugasemdir