Samkvæmt rástímayfirliti Hlíðavallar á golf.is átti Höskuldur Þór Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, bókaðan leik í gær klukkan 13:50. Á sama tíma fór fram þingfundur á Alþingi þar sem rætt var meðal annars um vernd og orkunýtingu landsvæða.
„Heyrðu, ég afbókaði tímann. Ég bið að heilsa,“ sagði Höskuldur í samtali við Stundina áður en hann skellti á blaðamann. Höskuldur svaraði ekki símanum þegar hringt var til baka.
Höskuldur er með þeim þingmönnum Alþingis sem hefur versta mætingu. Píratar tóku saman mætingu þingmanna á síðasta kjörtímabili. Í þeim gögnum kemur fram að á síðasta kjörtímabili var Höskuldur með næstverstu mætingu á eftir Árna Johnsen, en allt kjörtímabilið var Höskuldur með 749 fjarvistir við atkvæðagreiðslur. Hann var því mættur við einungis 48.4 prósent atkvæðagreiðslna.
Reyndist fjarverandi
Á sama tíma og Höskuldur hugðist fara í golf fóru fram nokkuð hörð orðaskipti á Alþing, enda stór mál sem átti bæði að kjósa um og ræða. Þar má nefna atkvæðagreiðslu um frumvarp um meðferð og sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum sem fór fram klukkan 14:47. Þá atkvæðagreiðslu var Höskuldur fjarverandi. Samkvæmt því frumvarpi verður bankasýsla ríkisins lögð niður og eignarhlutur ríkisins fer undir fjármála- og efnahagsmálaráðherra.
Umræða til níu um kvöldið
Því næst fór fram umræða um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Lagt er til að alls fimm virkjanakostir verði færðir úr biðflokki rammaáætlunar í nýtingarflokk, en þetta eru Hvammsvirkjun, Holtavirkjun, Urriðafossvirkjun, Skrokkölduvirkjun og Hagavatnsvirkjun. Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt þetta harðlega og svo fór að umræðu lauk ekki fyrr en um níuleytið.
Athugasemdir