Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, vill taka að sér formennsku í nefnd á þinginu sem nú er að hefjast. Þetta kom fram í viðtali við hana í þættinum Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun. „Ég held að konur nálgist stjórnmálin aðeins öðruvísi en karlar,“ sagði hún í spjalli við Óðin Jónsson, umsjónarmann þáttarins og fyrrverandi fréttastjóra RÚV.
Uppfært kl. 17:00:
Ljóst er að Hanna Birna Kristjánsdóttir verður formaður utanríkismálanefndar Alþingis. Þetta var samþykkt á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins í dag.
Hanna Birna sagði af sér embætti innanríkisráðherra þann 21. nóvember 2014. Mikið hafði gengið á; aðstoðarmaður hennar var dæmdur fyrir að leka persónuupplýsingum um hælisleitendur til fjölmiðla, hún var staðin að því að segja Alþingi og fjölmiðlum ósatt um málavöxtu en auk þess hafði DV greint frá afskiptum hennar af lögreglurannsókn á innanríkisráðuneytinu sem Umboðsmaður Alþingis fjallaði síðar ítarlega um í áliti þann 23. janúar á þessu ári.
„Skortur á öflugum konum“
„Ég var reyndar að hugsa það á leiðinni hingað, það eru tvö ár síðan allt þetta byrjaði í kringum þetta mál sem varð þess síðar valdandi að ég kvaddi þetta aðeins í bili,“ sagði Hanna Birna í viðtalinu og bætti því við að hún væri hugsi yfir hörkunni í stjórnmálum.
„Það er nú stöðugur skortur á öflugum konum sem gefa kost á sér í þennan harða slag, hefur það áhrif á þá ákvörðun þína að halda áfram?“ spurði Óðinn og tók Hanna Birna undir það. Sagði hún að það væri alþjóðleg staðreynd að konur færu síður í stjórnmál en karlar og entust þar skemur. Þessu til vitnis nefndi Hanna Birna að sú kona sem hefði mesta þingreynslu á Alþingi, Katrín Júlíusdóttir, aðeins nýorðin fertug. „Ég vil allavega ekki vera þannig kona að ég fari í burtu með skilaboðunum: þið skulið ekki vera hérna,“ sagði Hanna Birna.
Hefur verið kölluð ísdrottning
„Það er mikilvægt að hafa þessa fyrirmynd að konur standi af sér þessa storma eða hvað?“ spurði Óðinn og Hanna Birna jánkaði því. „Ég hef fengið á mig nöfn í þeim anda að ég sé kaldrifjuð og ég sé ísdrottning, og öll þessi fögru nöfn,“ sagði Hanna Birna. „Konur eiga að vera þátttakendur, gerendur í stjórnmálum, ekki fórnarlömb og alls ekki eitthvað veggskraut.“
„Þú tókst þér tíma í að sleikja sárin
og sýndir þessa kvenlegu auðmýkt“
Óðinn sagði við Hönnu Birnu að hún hefði sýnt „kvenlega auðmýkt“. „Þú tókst þér tíma í að sleikja sárin og sýndir þessa kvenlegu auðmýkt, fórst í skuggann og fórst með veggjum í þinghúsinu á síðasta ári,“ sagði hann. Hanna Birna svaraði: „Ég vil nú ekki meina að ég hafi farið með veggjum. Ég var bara, þetta reyndist mér bara erfitt og mjög snúið. Og það að vita ekki í heilt ár er miklu verra en að vita.“
Hér vísar Hanna Birna til brots Gísla Freys Valdórssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns síns, á þagnarskyldu sem markaði upphaf lekamálsins svonefnda. Gísli veitti Haraldi Johannessen, ritstjóra Morgunblaðsins upplýsingar um hælisleitendurna Evelyn Glory Joseph og Tony Omos þann 19. nóvember en þann 22. nóvember fundaði Hanna Birna með ritstjóranum í ráðherrabíl sínum. Hvorki Hanna Birna né Haraldur vilja gefa upp hvað fram fór á fundinum. „Ég hef ekkert við þig að tala,“ sagði Haraldur þegar Stundin spurði hann um málið í janúar, en Hanna Birna hefur ekki svarað fyrirspurn um málið. Hefur hún alltaf haldið því fram að hún hafi ekki vitað af sekt Gísla Freys. Þessu hélt hún til streitu í viðtalinu við Óðin í morgun.
Síður slegin skjaldborg um konur
Hanna Birna telur að konur taki „hremmingum í stjórnmálum“ persónulegar en karlar. „Síðan held ég því miður að það sé þannig – og það er alþjóðleg staðreynd – að það er síður slegin skjaldborg um konurnar heldur en strákana. Það hefur bara að gera með þessa menningu. Það er einhver svona hálfgerð vígvallarmenning í stjórnmálum,“ sagði hún.
Aðspurð hvað tæki við á næsta þingi sagðist hún ætla að „mæta af fullri gleði og mjög mikilli ánægju“. Hún sagðist síðast hafa farið inn í miklum rólegheitum. Ég ákvað bara að gefa mér tíma til að anda þessu að mér aftur.“ Nú tæki hins vegar öflugri þátttaka við. Hún sækist eftir því að verða áfram varaformaður Sjálfstæðisflokksins og býst við því að fara með formennsku í þingnefnd á Alþingi.
Neitaði að svara þingnefnd
Eftir að Umboðsmaður Alþingis skilaði þinginu áliti um afskipti Hönnu Birnu af störfum Stefáns Eiríkssonar, fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, gerði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tvær tilraunir til að fá Hönnu Birnu fyrir nefndina til að svara spurningum um lekamálið og framgöngu sína gagnvart þingheimi. Hanna Birna afþakkaði fundarboðið.
Um svipað leyti var greint frá því í fjölmiðlum að í ráðherratíð Hönnu Birnu hefði innanríkisráðuneytið í greitt markaðsstofunni Argus ehf. 2,4 milljónir króna vegna ráðgjafar í tengslum við lekamálið. Hjálpaði fyrirtækið ráðherranum að bæta ímynd sína í fjölmiðlum. Lögfræðiráðgjöfin sem fyrrverandi ráðherra fékk var einnig kostuð af skattgreiðendum, en lögmannsstofan LEX fékk rúmlega eina milljón króna fyrir þjónustu sína. Alls nam beinn kostnaður ráðuneytisins vegna aðkeyptrar ráðgjafar vegna lekamálsins tæpum 3,5 milljónum króna.
Athugasemdir