Þessi grein birtist upphaflega í Stundinni fyrir meira en 7 árum.

Ný talskona útgerðarmanna: „Þjóðin getur ekki átt neitt“

Helstu hags­muna­sam­tök Ís­lands hafa geng­ið í gegn­um ham­skipti á síð­ustu ár­um og skipt um nafn. Stund­in fylg­ir eft­ir pen­ing­un­um og tengsl þeirra við vald og fjöl­miðla. Heið­rún Lind Marteins­dótt­ir, nýr fram­kvæmda­stjóri Sam­taka fyr­ir­tækja í sjáv­ar­út­vegi, seg­ir að skatt­ar séu of­beldi og tel­ur að þjóð­in geti ekki átt neitt. Hún berst gegn því að út­gerð­ar­menn þurfi að borga meira í sam­eig­in­lega sjóði vegna notk­un­ar auð­lind­ar­inn­ar.

„Þjóðin getur ekki átt neitt,“ segir Heiðrún Lind Marteinsdóttir, nýr framkvæmdastjóri helstu hagsmunasamtaka landsins, sem berjast gegn því að greiða hærra gjald vegna nýtingar á sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Hagsmunasamtök útgerðarmanna, sem nýta helstu auðlind Íslendinga, hafa tekið stakkaskiptum síðustu ár um leið og þau hafa barist gegn róttækum kerfisbreytingum. Þetta er saga hagsmuna, peninga og átaka, sem hófst við upphaf seinni heimsstyrjaldar. 

Þann 17. janúar 1939 hittust 50 útgerðarmenn á fundi í Reykjavík og stofnuðu Landssamband íslenskra útvegsmanna, LÍÚ. Var hugmyndin með stofnuninni sú að hagsmunum útgerðarmanna um land allt gæti verið gætt af einu og sama félaginu. LÍÚ átti svo eftir að vaxa og eflast næstu áratugi, félagsmenn og aðildarfélög áttu eftir að styrkja stjórnmálamenn og flokka, standa að fjölmiðlaútgáfu og beita þrýstingi sínum til aukinnar hagsældar sinna félaga. 

Arðbærasta náttúruauðlind Íslands er fiskurinn. Hann er okkar olía. Öldum saman var sjómennska stunduð sem aukabúgrein samhliða hefðbundnum búskap, en með tilkomu vélbáta tók það að breytast. Sífellt fleiri fóru að sinna alfarið sjómennsku og gekk sjósókn svo vel að mun meiri fiskur veiddist en landinn gat torgað. Útflutningur á fiskafurðum hófst þá fyrir alvöru og hefur, með miklum sveiflum og breytingum, staðið til okkar tíma.

Síðustu áratugi hefur svo þessi útflutningur verið hryggjarstykkið í efnahagslífi þjóðarinnar. Útgerðirnar hafa orðið stærstu og öflugustu fyrirtæki landsins og eigendur þeirra skattakóngar og -drottningar. Þegar um svo gríðarlega fjármuni og hagsmuni þeim tengdum er að ræða er svo nánast öruggt að átök muni eiga sér stað. 

Ólíkar aðferðir útvegsmanna við það að verja hagsmuni sína og koma sjónarmiðum sínum á framfæri lögðust alla tíð misjafnt í almenning. Fékk LÍÚ á sig ákveðna ímynd auðsöfnunar og sérhagsmuna. Á árunum eftir hrun hefur sú krafa orðið háværari en nokkru sinni fyrr að útgerðin greiði aukna hlutdeild af auðlindarentunni í sjávarútvegi til þjóðarinnar.

Sjávarútvegsfyrirtæki hafa notið góðs af lægra gengi krónunnar og ár eftir ár eru sagðar fréttir af arðgreiðslum og miklum gróða eigenda fyrirtækjanna. Á sama tíma barðist LÍÚ af hörku gegn hvers kyns breytingum á fiskveiðistjórnunarkerfinu og hærri veiðigjöldum. Þetta varð til þess að samtökin urðu umdeildari. 

„Við erum að taka okkur alveg í gegn.“

Þann 30. október 2014 fór svo fram síðasti fundur LÍÚ. Þá sameinaðist LÍÚ Samtökum fiskvinnslustöðva undir hinu nýja heiti: Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS. Án þess að nokkur tæki eftir voru umdeildustu hagsmunasamtök landsins búin að taka stakkaskiptum.

Kolbeinn Árnason
Kolbeinn Árnason Leiddi sameininguna og var framkvæmdarstjóri þar til Heiðrún tók við.

Yfirlýst markmið sameiningar og nafnbreytingar var sögð vera „sú að okk­ur þykir þessi tvö fé­lög sem hafa verið starf­andi á sviðinu hafa skort þá breidd sem þarf til að ræða um sjáv­ar­út­veg­inn eins og hann er í dag,“ sagði Kolbeinn Árnason, sem þá var nýr og framsækinn framkvæmdastjóri LÍÚ. „Við erum að taka okkur alveg í gegn,“ sagði hann við sama tilefni. Þótt yfirlýstur tilgangur hafi ekki verið að fjarlægja samtökin úr hinni almennu umræðu þá tókst það samt fullkomlega. Fönixinn SFS reis upp úr ösku LÍÚ. 

Ný andlit 

Nafna og ímyndarbreytingar eins og LÍÚ gekk í gegnum er kostnaðarsamt og umfangsmikið framtak, segir Andrés Jónsson, almannatengill. „Fyrirtæki þurfa  í rauninni að vera komin á endastöð með það nafn og vörumerki sem þau hafa verið að starfa undir. Þannig það þarf ansi mikið til.“ Breytingar af þessu tagi sé aðeins ráðist í að mjög yfirlögðu ráði og afar sjaldgæft sé að rótgróin vörumerki á Íslandi fari í eins gagngera yfirhalningu.

Kjósa
0
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir.
Tengdar greinar

Fiskveiðar

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár