Mánaðarlega stendur hópur af konum fyrir góðgerðarsöfnun í gegnum Facebook-hópinn Góða systir. Þennan mánuðinn er söfnunin í nafni Birnu Brjánsdóttur og mun ágóðinn skiptast milli björgunarsveitanna og lögreglunnar.
„Með hverjum mánuðinum safnast hærri upphæð en þetta er í fyrsta skipti sem við höfum komist upp í eina milljón króna,“ segir Anna Svava Knútsdóttir, einn skipuleggjandi söfnunarinnar, í samtali við Stundina. „Í 90% tilfella eru það konur sem styrkja söfnunina og það er alveg ótrúlegt hvað margt smátt getur gefið stórt,“ segir Anna Svava.
„Einu sinni í mánuði veljum við málefni úr þeim fjölda fyrirspurna sem berast okkur á Góða systir e-mailið, godasystir@gmail.com. Markmið með söfnununum hefur alltaf verið að styrkja einstaklinga því okkur finnst alltaf verið að safna fyrir góðgerðarfélög eins og Rauða Krossinn eða Unicef. Fyrsta söfnunin var fyrir Anju Mist sem fæddist á viku 25, síðan höfum við til dæmis styrkt öryrkjakonu sem átti ekki fyrir leigu og alls konar fólk sem er að ganga í gegnum erfiða tíma og hefur ekki sterkt bakland,“ útskýrir Anna Svava. Þennan mánuðinn var þó ákveðið að verða við ósk móður Birnu um að styrkja tækjakaup lögreglunnar og björgunarsveitirnar.
Safna í krafti fjöldans
Anna Svava segir verkefnið hafa byrjað þegar vinnufélagi hennar Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir sagði: „Vá hvað eru margir í þessari grúppu, ef allir myndu leggja 100 kr. á mánuði gæti safnast ótrúlega mikill peningur.“
Flestar sem styrkja söfnunina leggja inn mánaðarlegar greiðslur frá 100 kr. upp í 500 kr. og með hverjum mánuðinum bætast við einstaklingar sem styrkja. Anna Svava segir takmarkið vera að safna í krafti fjöldans þar sem styrktaraðilar finna ekki endilega fyrir greiðslunum.
„Við höfum fengið einstaklega mikil viðbrögð þennan mánuðinn. Fyrir utan framlög frá einstaklingum höfðu þau Hera Hilmarsdóttir og Þorvaldur Davíð samband við okkur og vildu gefa allan ágóðann af einni sýningu sem þau voru með í Iðnú, sýningunni Andaðu. Sú upphæð mun svo bætast við það sem þegar er komið,“ segir Anna Svava.
„Við sem stöndum að söfnuninni erum hópur af konum sem þekkjumst ekki neitt “
„Við, sem stöndum að söfnuninni, erum hópur af konum sem þekkjumst ekki neitt og höfum því engra hagsmuna að gæta. Við komumst upphaflega í samband á Facebook hópnum Góða systir og höfum bara samskipti í gegnum netið,“ segir Anna Svava og bætir við, „kannski munum við hittast einn daginn og fara á kaffihús.“
Hægt er að styrkja söfnuninina með því að leggja inn á reikning félagsins eða greiða með Kass.
Reikningsupplýsingar: 0513-14-405972 kt. 580116-1590
Til að greiða með Kass: godasystir
IBAN: IS090513144059725801161590
Swift: GLITISRE
Athugasemdir