Flóttamenn, sem sótt hafa um hæli hér á landi það sem af er ári, hafa margir hverjir endað á framfæri Útlendingastofnunar, sem er illa í stakk búin til að sjá þeim fyrir lögboðnum nauðsynjum. Fram til þessa hefur félagsþjónustan í Reykjanesbæ og í Reykjavík séð um þjónustu fyrir alla hælisleitendur sem koma til Íslands, en í byrjun árs tók að skorta pláss hjá þeim. Vasapeningar til þess hóps sem Útlendingastofnun þjónustar voru ekki greiddir út svo mánuðum skipti, þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar Rauða krossins, og fólkið er enn í dag hýst á gistiheimilum með tilheyrandi aukakostnaði.
Sviknir um vasapeninga
Björn Teitsson, almannatengill Rauða krossins, segir hópinn nú telja um þrjátíu manns. Hann bætir við að Útlendingastofnun hafi ekki verið undirbúin fyrir verkefnið. „Þau eru ekki með starfsfólk, ekki með reynslu og ekki með kunnáttu,“ segir hann. Stofnunin hafi ekki átt bankareikning sem hún gat borgað út af í reiðufé. Allir hælisleitendur fá Bónuskort, sem átta þúsund krónur eru greiddar á í viku, svo fólkið var ekki á vonarvöl. Hins vegar mega hælisleitendur almennt ekki vinna og eru því upp á vasapeninginn komnir fyrir reiðufé, en sá vasapeningur nemur 2.700 krónum á viku. Þann pening greiddi Útlendingastofnun ekki út svo mánuðum skipti.
Athugasemdir