Vinalegt andlit hennar á bak við skörpu litríku gleraugun vekur ósjálfrátt hugrenningatengsl við íslenska efnahagshrunið. Hún var um tíma ráðgjafi Ólafs Þórs Haukssonar, þegar hann gegndi stöðu sérstaks saksóknara og hefur fylgst grannt með málum hér á landi eftir hrun. Í þetta sinn var Eva komin til Reykjavíkur til að taka þátt í málþingi í Norræna húsinu, sem Píratar boðuðu til síðastliðinn mánudag, undir yfirskriftinni Heimurinn eftir Panamaskjölin. Það er ekki að ástæðulausu að hún er fengin til að ræða þau málefni. Hún er fulltrúi franskra græningja á Evrópuþinginu og situr í svokallaðri Panamaskjalanefnd sem tók nýlega til starfa. Nefndinni er ætlað að rannsaka meint brot og slaka stjórnsýslu við framkvæmd Evrópulaga gegn peningaþvætti og skattaundanskotum ýmiss konar. Þá liggur beinast við að spyrja hana hvort heimurinn hafi eitthvað breyst eftir þennan stærsta gagnaleka sögunnar?
Hún svarar því til að heimurinn hafi breyst og líkir viðbrögðum almennings við Luxleaks-málið, þar sem fyrrverandi starfsmaður endurskoðunarfyrirtækisins PricewaterhouseCoopers í Lúxemborg lak skjölum um skattahagræði alþjóðlegra stórfyrirtækja sem starfa í landinu. Eva sat einnig í nefnd Evrópuþingsins sem fjallaði um það mál. „Allir vissu að fjölþjóðlegu fyrirtækin væru ekki að greiða sína skatta. En þegar fólk fékk upplýsingarnar svona svart á hvítu, þegar það sá nöfn fyrirtækjanna og hvað þau greiða lítið til samfélagsins, vakti það sterkar tilfinningar. Þessu er eins farið með Panamaskjölin. Við vissum að gríðarlegir fjármunir væru í aflandsfélögum. En þegar við sáum nöfnin á bakvið þessa milljarða gerðist eitthvað innra með okkur. Að sjá þarna þjóðarleiðtoga, háttsetta ráðamenn, dómara. Gagnsæi breytir afstöðu okkar, vekur hjá okkur löngun til að bregðast við. Það er eins og skyndilega hafi fjarað frá og við sjáum loksins allt það sem var falið undir yfirborðinu.“
Athugasemdir