Viðreisn, Vinstri grænir og Píratar eru sigurvegarar Alþingiskosninganna 2016, en Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin helstu tapararnir.
Þá bætir Sjálfstæðisflokkurinn við sig fylgi og endurheimtir stöðu sína sem langstærsti flokkurinn á landinu eftir hrun Framsóknarflokks.
Bjarni Benediktsson og flokkur hans fá um 34% fylgi í kjördæmi hans, Suðvesturkjördæmi, og bæta þar við sig um 4 prósentustigum. Í heild fær Sjálfstæðisflokkurinn tæplega 29% á landinu öllu, sem er mun meira en kannanir sýndu.
Bæði Bjarni Benediktsson og Benedikt Jóhannesson fara fram á að fá stjórnarmyndunarumboðið. Mörg ríkisstjórnarmynstur eru í myndinni formlega, en ný ríkisstjórn mun koma á óvart. „Ég er bara í þessu fyrir ávinning landsmanna,“ sagði Bjarni í viðræðum á Stöð 2 í hádeginu.
Birgitta Jónsdóttir pírati sagði í samtali við RÚV að Píratar hefðu gert sína innri spá um 12 til 15 prósenta fylgi, en kannanir hafa sýnt þá með um 20 prósenta fylgi. „Við erum að þrefalda fylgið okkar og það er magnað,“ sagði Birgitta í samtali við RÚV.
„Sú staða að svona margir Íslendingar treysta okkur er awesome“
„Sú staða að svona margir Íslendingar treysta okkur er awesome,“ sagði Birgitta síðar í ræðu á kosningavöku Pírata.
Píratar bæta við sig 6 þingmönnum, Viðreisn fær 7 nýja þingmenn, Vinstri grænir fjölga um 3og Sjálfstæðisflokkurinn bætir við sig 2, á meðan Framsóknarflokkurinn missir 11 þingmenn, Samfylkingin 6 og Björt framtíð 2.
Samfylkingin hrynur
Össur Skarphéðinsson féll af þingi í Reykjavík suður í nótt, en hann var þar í fyrsta sæti fyrir Samfylkinguna. Sigríður Ingibjörg Ingadóttur er einnig fallin út í Reykjavík norður og Samfylkingin því með engan þingmann í Reykjavík. Í Suðvesturkjördæmi náði Samfylkingin ekki heldur manni inn og féll Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður flokksins, þar út.
„Ég er hætt að leita skýringa.“
„Við eigum að vera stolt af jafnaðarstefnunni,“ sagði Oddný Harðardóttir í samtali við RÚV, og sagðist vilja hætta að ræða erfiða stöðu Samfylkingarinnar og byrja að ræða framtíðina. „Ég er hætt að leita skýringa. Ég vil bara horfa fram á veginn.“
Um er að ræða verstu útkomu jafnaðarmannaflokks í hundrað ár.
Katrín vinnur - Sigmundur fellur
Þá vekur athygli að Framsóknarflokkurinn helmingast í kjördæmi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í þingmannatölu. Flokkurinn var með 34,5% fylgi í kosningunum 2013 en féll í um 20% nú.
Katrín Jakobsdóttir og listi hennar í Reykjavík norður fengu hins vegar 21% fylgi í Reykjavík norður, úr 16% árið 2013, næst á eftir Sjálfstæðisflokknum sem fékk 24,4% í kjördæmi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur og Birgis Ármanssonar.
Fylgi skiptist með þessum hætti:
Sjálfstæðisflokkur: 29,0% - 21 þingmenn
Vinstri grænir: 15,9% - 10 þingmenn
Píratar: 14,5% - 10 þingmenn
Viðreisn: 10,5% - 7 þingmenn
Framsóknarflokkurinn: 11,5% - 8 þingmenn
Björt framtíð: 7% - 4 þingmenn
Samfylkingin: 6% - 3 þingmenn
Flokkur fólksins - 3,5%
Dögun - 1,7%
Alþýðufylkingin - 0,3%
Íslenska þjóðfylkingin - 0,2%
Húmanistar - 0,0%
Athugasemdir