Sigríður Ásthildur Andersen, þingkona Sjálfstæðisflokksins, og Almenna bókafélagið hljóta Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar í ár.
Samband ungra sjálfstæðismanna veitir verðlaunin einum einstaklingi og einum lögaðila á hverju ári en verðlaunin eru nefnd í höfuðið á fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins til 26 ára og bankaráðsmanni í Landsbankanum. Er þannig leitast við að heiðra störf Kjartans í þágu frjálshyggju á Íslandi. Svo skemmtilega vill til að Kjartan Gunnarsson er sjálfur hluthafi í Almenna bókafélaginu, eða BF-útgáfu ehf, sem er annar verðlaunahafanna að þessu sinni.
Samband ungra sjálfstæðismanna rökstyður valið á verðlaunahöfum í fréttatilkynningu sem send var fjölmiðlum í dag. Fram kemur að Sigríður Andersen hljóti verðlaunin fyrir áralanga baráttu sína fyrir frelsi einstaklingsins til athafna og viðskipta. Hún hafi skrifað fjölda pistla og blaðagreina sem hafi haft góð áhrif á opinbera umræðu og hvatt til minni ríkisafskipta. Sigríður sé „öflugur málsvari frelsisins, óháð því hvort málstaðurinn telst vinsæll eða óvinsæll“.
Um Almenna bókafélagið segir í tilkynningunni: „Áhersla bókafélagsins hefur frá fyrstu tíð verið sú að gefa út vandaðar bækur á góðu máli. Hefur félagið í því skyni látið þýða fjölda bóka og rita yfir á íslensku sem auðvelda lesendum að afla sér þekkingar á sviði frelsis og samfélagsmála. Þá hefur félagið einnig staðið fyrir útgáfu bóka um ýmis álitaefni samtímans, svo sem Icesave-málið og búsáhaldabyltinguna.“
Almenna bókafélagið, eða BF-útgáfa ehf., er að mestu í eigu þriggja aðila samkvæmt nýjasta ársreikningi félagsins.
Öld ehf., félag Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, stjórnmálafræðiprófessors, á helmingshlut, Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri á 25 prósenta hlut og Kjartan Gunnarsson á 20 prósenta hlut í útgáfufélaginu.
Eftir því sem Stundin kemst næst er þetta í fyrsta skiptið sem fyrirtæki í eigu Kjartans Gunnarssonar hlýtur Frelsisverðlaun Kjartans Gunnarssonar. Tekið skal fram, til að fyrirbyggja hvers kyns misskilning, að Kjartan Gunnarsson hefur engin áhrif á það hver hlýtur verðlaunin hverju sinni.
Verðlaunin verða veitt klukkan 17:00 í dag við hátíðlega athöfn í Valhöll.
Athugasemdir