Forystumenn ríkisstjórnarinnar, þeir Sigurður Ingi Jóhannsson og Bjarni Benediktsson, tjáðu fulltrúum stjórnarandstöðuflokkanna á fundi í stjórnarráðinu í dag að þingkosningar yrðu haldnar í október. Þetta staðfesta Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, í samtali við Stundina.
Á Mbl.is er haft eftir Sigurði Inga forsætisráðherra að „eftir því hvernig mál ganga fram gætu kosningar orðið hugsanlega seinni hlutann í október.“ Þá segja forystumenn ríkisstjórnarinnar í viðtali við fréttastofu RÚV að „til greina komi að þingkosningar verði í seinni hluta október“ en að „það sé þó háð ákveðnum fyrirvörum“.
Katrín Jakobsdóttir furðar sig á þessu í samtali við Stundina. „Minn skilningur var sá að til stæði að halda kosningar í seinni hluta október, að þannig væri einfaldlega tímaraminn. Þeir kynntu fyrir okkur málaskrá sem var allítarleg. Ég hefði ennþá talið skynsamlegast að kosningar færu fram í vor, en auðvitað er ágætt að reynt sé að eyða óvissu um þetta.“
Athugasemdir