Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fundaði með skattrannsóknarstjóra um kaup á gögnum um Íslendinga í skattaskjólum sem meðal annars höfðu að geyma upplýsingar um Bjarna sjálfan og viðskiptafélaga hans. Fjármálaráðuneytið setti kaupunum skilyrði sem reyndist erfitt að uppfylla. Bjarni Benediktsson gagnrýndi embætti skattrannsóknarstjóra og þingmenn stjórnarandstöðunnar sökuðu ráðherrann um frændhygli og að þvælast fyrir framgangi málsins.
Hvað svo sem hæft var í slíkum ásökunum ber sérfræðingum í stjórnsýslurétti sem Stundin hefur rætt við saman um að aðkoma fjármálaráðherra að málinu kunni að hafa verið á gráu svæði ef litið er til óskráðra meginreglna stjórnsýsluréttar um hæfi. Þá segir dósent í stjórnsýslufræðum við Háskóla Íslands að aðkoma Bjarna hafi verið afar óheppileg og eðlilegra hefði verið að hann segði sig frá málinu í ljósi viðskiptafortíðar sinnar. Eftir afhjúpanir Panama-skjalanna liggi þetta ef til vill skýrar fyrir en nokkru sinni fyrr.
Óvissuþættir flækja málið
„Nafn fjármálaráðherrans var meðal gagnanna í pakkanum sem skattrannsóknarstjóra bauðst,“ segir í frétt sem fjölmiðillinn Reykjavik Media birti þann 3. apríl síðastliðinn. Ráðherrann hefur ítrekað tekið fram að hann hafi ekki vitað af eignarhlut sínum í félagi á Seychelles-eyjum heldur haldið að félagið væri skráð í Lúxemborg. Samkvæmt þessu vissi hann ekki að nafn hans væri að finna í gögnunum sem skattrannsóknarstjóri keypti.
„Hæfi eða vanhæfi Bjarna í þessu máli veltur að miklu leyti á því hvort við trúum hans eigin skýringum, til dæmis þess efnis að hann hafi ekki vitað að félagið væri skráð á Seychelles-eyjum,“ segir einn þeirra þriggja lögfræðinga sem Stundin ræddi við. Annar tekur undir að erfitt sé að meta stöðu ráðherra í málinu vegna óvissuþátta og að ýmsum spurningum sé ósvarað.
Athugasemdir