Fyrir rúmri viku síðan var öllum nemendum á unglingastigi Fjölbrautaskóla Vesturlands safnað saman í matsal skólans til að hlýða erindi um íslenskt atvinnulíf á vegum Háskólans á Bifröst. Nemendur hlustuðu á erindi fulltrúa Elkem og Norðuráls í hádegishlé sínu. Nemendur fengu enn fremur frí í næstu kennslustund eftir hádegishlé til að hlusta á erindin. Meðal efnis var kynning upplýsingafulltrúa álvers Norðuráls á því hversu umhverfisvæn starfsemin væri.
Ágústa Elín Ingþórsdóttir skólameistari segir að erindin hafi verið haldin í hádegishlé í matsal og ekki verið skyldumæting.
Nota minna rafmagn en almenningur
Fréttatilkynning var gefin út vegna fyrirlestranna af Háskólanum á Bifröst sem bar fyrirsögnina „Ísskápur fullur af áli“. Í þessari fréttatilkynningu er haft eftir brot af ræðum starfsmanna stóriðjufyrirtækjanna. „Elkem á Íslandi er hluti af sterkri alþjóðlegri heild, Elkem AS, sem er einn af helstu framleiðendum heims á málmblendi. Við framleiðum hágæða kísiljárn og leggjum mikla áherslu á að mæta kröfum viðskiptavina okkar. Framleiðslugeta málmbræðsluofna verksmiðjunnar eru 120.000 tonn. Við leitumst eftir að innleiða vinnuferla sem lágmarka áhrif á umhverfið og notum til að mynda ekki mikla raforku samanborið við álver og almenning til dæmis,“ er haft eftir fulltrúum Elkem, Örvari Sveinssyni og Róbert Gunnarssyni.
„Ísskápur fullur af áli“
Því næst tók til máls upplýsingafulltrúi Norðuráls, Sólveig Bergmann, og vakti hún athygli nemenda á því hve víða ál væri að finna í nærumhverfi þeirra eins og því er lýst í tilkynningu. „Ál er frumefni og það má endurvinna nær endalaust án þess að það tapi eiginleikum sínum, ál er af þessum sökum oft kallað græni málmurinn. Ál er að finna mjög víða, ef þið lítið inn í ísskápinn heima hjá ykkur þá er mjög líklegt að hann sé fullur af áli en það er notað í umbúðir sem er að finna utan um ýmsar matvörur. Álið er notað til að auka endingartíma vörunnar. Ál er einnig mikið notað í bíla en það er helmingi léttara en aðrir málmar og þegar bíll léttist þá eyðir hann minna eldsneyti og er fyrir vikið mun umhverfisvænni,“ var haft eftir Sólveigu.
„Ál er af þessum sökum oft kallað græni málmurinn.“
Hugsað sem starfskynning
Ágústa Elín segir að erindi fulltrúanna hafi verið hugsað sem starfskynning. „Þetta var kynning í sal í frímínútum og var í framhaldi af skólakynningu um íslenskt atvinnulíf hérna í skólanum. Þetta er bara kynning í frímínútum. Ég var nú ekki sjálf þarna stödd og veit því ekki hvernig þetta var nákvæmlega. Þetta var unnið í samstarfi við Háskólann á Bifröst. Þeir hafa verið á faraldsfæti með þessa sýningu í framhaldsskólum. Þetta eru fleiri, fleiri fyrirtæki þannig að þetta er mjög sniðugt concept,“ segir Ágústa.
„Þetta voru bara tvö fyrirtæki, þessi stóru á svæðinu“
Hins vegar voru Elkem og Norðurál einu fyrirtækin sem fluttu fyrirlestur fyrir nemendur. „Það var fulltrúum fyrirtækja boðið sem eru í nánasta umhverfi til að fylgja þessu betur eftir. Þetta voru bara tvö fyrirtæki, þessi stóru á svæðinu [...] Þetta er aðallega starfsfræðsla og þannig var þetta hugsað. Þetta getur alltaf farið út í [lofræðu] en hugmyndin er að þetta sé starfakynning fyrir nemendur og svo líka til að leggja áherslu á þessi fyrirtæki sem eru í nánasta umhverfi til að kynna fyrir nemendum fjölbreytt störfin,“ segir Ágústa Elín.
Nýútskrifaður nemi úr skólanum, sem Stundin ræddi við, undrast að stóriðjufyrirtækin fái slíkan aðgang að nemendum, en hann segir slíkt ekki hafa tíðkast.
„Það sem mér finnst býsna merkilegt er að nemendum var smalað inn á sal. Ég man ekki til þess að þetta hafi gerst meðan ég var nemi við skólann þegar Háskólar eða því um líkt komum í heimsókn,“ segir hann.
Athugasemdir