„Þessi synjun kom mér ekki beinlínis á óvart en þetta eru mikil vonbrigði. Sem betur fer er þetta ekki síðasti séns þessarar fjölskyldu. Niðurstaða Útlendingastofnunar hefur þegar verið kærð til kærunefndar útlendingamála.“
Þetta segir Kristjana Fenger, lögmaður albönsku fjölskyldunnar sem Útlendingastofnun synjaði um hæli á Íslandi í gær, í samtali við Stundina. Um er að ræða fimm manna fjölskyldu sem kom til Íslands í byrjun júní á flótta undan ofsóknum og mismunun í heimalandinu. Vísir greindi frá málinu í morgun.
Að sögn Kristjönu Fenger, lögmanns fjölskyldunnar, virðist almennt mat á aðstæðum í Albaníu hafa ráðið niðurstöðu Útlendingastofnunar. „Framburður fjölskyldunnar var metinn trúverðugur en það virðist ekki nægja,“ segir hún í samtali við Stundina.
Illugi Jökulsson rithöfundur hefur hafið undirskriftasöfnun til stuðnings fjölskyldunni undir yfirskriftinni „Leyfum Telati fjölskyldunni að setjast að á Íslandi“.
Athugasemdir